Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:03:00 (169)

2000-10-05 18:03:00# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárln., verður sjálfur að kjósa hvaða siðum hann fylgir í umgengni sinni við annað fólk í þessum þingsölum. Ef hann kýs að koma hérna og ausa köpuryrðum, kalla menn bullara og annað slíkt þá verður hann auðvitað að búast við því að fá kannski einn til baka líka.

Hv. þm. féll hér í ákaflega sjaldgæfa gryfju. Hann byrjaði að grafa skurð sem hann ætlaði að hrinda öðrum ofan í en féll í hann sjálfur. Hv. þm. sagði nefnilega að þetta væri allt saman bull sem ég hefði sagt og það sem ætti að hafa fyrir rétt í þessu efni væri að láta persónuafsláttinn fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs. Það sem ég gerði var að lesa hérna fyrir hv. þm. að vísitala neysluverðs hækkar um 5,5% á árinu samkvæmt spá ríkisstjórnarinnar. En það liggur líka fyrir að persónuafsláttur hefur hækkað á árinu í tveimur þrepum, 1. janúar og síðan aftur 1. apríl og sú aukning nemur bara 4,4%.

Hvað ætlar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þá að gera til að fylgja því eftir sem hann sagði hérna? Til að fylgja því eftir að gamla fólkið fái hækkunina sem hann er búinn að segja að því beri. Hann er búinn að segja að aðrar viðmiðanir sem ég var með hérna séu rugl og vitleysa og hann kom með aðra. Og samkvæmt því skuldar ríkisstjórnin gamla fólkinu álitlegar upphæðir.

Ætlar hann sem varaformaður fjárln. að beita sér fyrir breytingum á fjárlagafrv. þannig að hans eigin orð hljómi ekki eins og bull og vitleysa úr þessum stól? Ég, herra forseti, ætla að gera mitt í fjárln. til þess að bjarga mannorði hans og hjálpa honum til þess að hjálpa sér sjálfum.