Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:19:16 (173)

2000-10-05 18:19:16# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Verð hlutabréfa á verðbréfamarkaðnum fer að sjálfsögðu eftir mati manna á arðsemi þeirra fyrirtækja sem þar er um að ræða, hækkar og lækkar eftir því. Afkoma fyrirtækja hefur því miður verið að versna að undanförnu og þess vegna hefur hlutabréfavísitalan verið að lækka.

Við erum hins vegar að leggja fram frv. sem hefur það að meginmarkmiði að efla stöðugleikann í efnahagslífinu, skjóta styrkari stoðum undir þann almenna ramma sem fyrirtækin starfa innan. Það mun þá væntanlega hafa áhrif til lengri tíma á hið almenna umhverfi fyrirtækja, jafnt sem einstaklinga og heimila.

Ég vil bæta einu við varðandi viðbrögð markaðarins. Það hefur komið fram gagnrýni af hálfu aðila um að ekki sé nógu skýrt í frv. hvernig eigi að ráðstafa tekjuafganginum, þessum mikla tekjuafgangi. Ég get tekið undir það að það er ekki nógu skýrt vegna þess að ekki er algjörlega búið að ákveða það og ekki búið að kynna það fyrir svokölluðum markaðsaðilum. Ég hafði hugsað mér sl. mánudag að halda fund með þeim eins og ég hef svo oft gert til þess að fara yfir stöðu mála og fara yfir það með hvaða hætti ríkissjóður hyggst ráðstafa tekjuafgangi sínum. Af því varð ekki af ástæðum sem ekki var við ráðið en sá fundur verður haldinn von bráðar og auðvitað mun ekki skorta neitt á að fyrir liggi hver áform ríkissjóðs verða varðandi uppgreiðslu skulda o.þ.h. En það eru slíkir hlutir sem markaðurinn vill fá upplýsingar um og á rétt á að fá að vita um. Það mun ekki standa á því. Hins vegar er ekkert óeðlilegt að það liggi ekki fyrir í sömu andrá og fjárlagafrv. er lagt fram.