Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:44:59 (178)

2000-10-05 18:44:59# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Frá því lögin voru sett sem eru núgildandi lög, hefur þeim verið fylgt. Það á að fylgja annaðhvort almennum launum eða neysluvísitölunni. Í dag eru áhöld um hvort þetta hafi tekist. Menn deila um hvort munurinn sé 0,3 eða 0,4% sem vanti upp á. Vegna þessara deilna tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að við næstu launahækkun sem verður 1. janúar nk., sem átti að verða 3% og verður 3% yfir almenna markaðinn, verði launahækkanir 4% til að taka af allan vafa um það að lögunum skuli fylgt því þau eru þannig. Frá því þessi lög tóku gildi hefur þeim verið fylgt. Það hefur verið staðið nákvæmlega við það. Hinu skulu menn ekki gleyma að í nokkur ár áður en lagasetningin átti sér stað var ákvörðun um laun til elli- og örorkulífeyrisþega tekin samkvæmt ákvörðun fjárlaga. Það var ekki viðmiðun við lægstu laun. Það var gert þannig.

[18:45]

Ég skal ekkert um það segja, ég hef ekki tölur um það, hvernig þetta var á fyrri helmingi þessa áratugar. Ég er alveg viss um og get staðið við það að síðan þetta var lögfest hefur öll viðleitni verið sú að fylgja þessu. Sé þarna eitthvað sem fer á milli mála núna, um 0,1%, 0,2% eða 0,3%, þá er yfirlýsing um að það skuli verða leiðrétt og ríflega það um næstu áramót, um 1%, þannig að ekkert fari milli mála.