Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:46:43 (179)

2000-10-05 18:46:43# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hv. þm. segir annars vegar að lögunum hafi verið fylgt. Hins vegar fylgir hann því eftir með því að segja að áhöld séu um að svo hafi verið, (Gripið fram í.) já, þess vegna sé að koma til viðbótarhækkun til að taka af allan vafa. Mér finnst mjög gott ef það er gert og mér finnst enn betra ef menn viðurkenna mistök sem þeim hafa orðið á.

Það er líka rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að um tíma var ekkert samband þarna á milli. Þá höfðu tengslin milli launaþróunar og almannatrygginga verið rofin, en síðan kom til sögunnar nýmæli í lögum sem kvað á um að almannatryggingar skyldu hækka samkvæmt launavísitölu eða neysluvísitölu eftir því hvor vísitalan væri hærri. Mér fannst þetta vera góð breyting og breyting til bóta og geta varið lífeyrisþega þegar kjararýrnun er í samfélaginu.

En það sem ég er að leggja áherslu á er að sú viðmiðun sem menn höfðu áður og var bundin við lága kauptaxta, hefði fært öldruðum og öryrkjum miklum mun meiri kjarabætur á liðnum árum en sú viðmiðun sem við höfum núna í lögunum. Fram undan er kjaraþróun sem er á sömu nótum, og ég vitnaði í prósentur, rúm 13% annars vegar til næstu fjögurra ára og 30% hækkunar á lágmarkslaunum, sem hefði komið til öryrkja og aldraðra fyrir breytingarnar sem gerðar voru upp úr miðjum tíunda áratugnum.