Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:49:35 (181)

2000-10-05 18:49:35# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:49]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti hér innblásna hvatningarræðu, ágæta og mikla. En það er nú einhvern veginn þannig að þrátt fyrir að verið sé að setja Íslandsmet í afgangi á fjárlögum, a.m.k. gera áætlanir ráð fyrir að svo verði, þá er veruleikinn sá að fyrstu viðbrögð atvinnulífsins, þ.e. fyrstu viðbrögð eftir að þetta frv. kemur fram, eru neikvæð. Ég velti því fyrir mér hvaða skýringu hv. þm. hefur á því að svo sé. Hann sagði sjálfur að við værum að skapa hér starfsumhverfi atvinnulífsins, en fyrstu viðbrögð atvinnulífsins eru neikvæð.

Það eru kannski einkanlega þrír þættir sem ég held að geti komið til álita eins og ég sagði í ræðu minni áðan. Í fyrsta lagi sé afgangur af fjárlögum ekki nægilegur. Í öðru lagi getur verið að menn hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með það að ekki séu fleiri eða meiri ríkiseignir seldar. Og í þriðja lagi og ekki síst að á þessum öru breytingatímum sem við erum að upplifa séum við að tala um gamalt, lúið fjárlagafrv. þar sem ekkert framsækið eða nýtt er að finna. Ef til vill er það sambland af þessum þremur þáttum sem gerir það að verkum að fyrstu viðbrögð atvinnulífsins við fjárlagafrv. eru neikvæð.

En, virðulegi forseti. Ég ber því þá spurningu upp við hv. þm.: Hvernig skýrir hann þessi viðbrögð?