Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:52:28 (183)

2000-10-05 18:52:28# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:52]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir allt það sem hv. þm. sagði hér áðan. Allt það sem hann taldi upp eru hamfarir fyrir atvinnulífið. Það var því líka eðlilegt að menn biðu eftir því að sjá hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera við þessar aðstæður. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að allt sem frá atvinnulífinu hefur komið þessa fáu daga síðan fjárlagafrv. kom fram, er neikvætt, þ.e. þrátt fyrir þær hamfarir sem hv. þm. nefndi áðan, sjá menn ekkert ljós í þeim fjárlögum sem hér liggja fyrir og það er hinn harði veruleiki.

Ég spurði hv. þm. hvort hann gæti skýrt hvað það væri sem menn hefðu orðið fyrir mestum vonbrigðum með. Hann svaraði því þannig að hann treysti sér ekki að tala fyrir aðra. En eitt sinn var sú tíð að hann talaði fyrir þetta sama atvinnulíf og gerði það á margan hátt mjög vel. Þetta var bara spurning mín til hv. þm., vegna þess að ég veit að hann skynjar oft efnahagsumhverfið betur en margir aðrir, hvað það væri í frv. sem gerði það að verkum að þrátt fyrir þessar hamfarir sæju menn ekkert ljós í því þrátt fyrir að afgangur á fjárlögum hafi aldrei verið meiri samkvæmt því frv. til fjárlaga sem nú liggur fyrir.