Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:55:13 (185)

2000-10-05 18:55:13# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu hér og hún hefur verið fróðleg og að mörgu leyti kemur hún til með að nýtast okkur. Hún er gagnleg í þeirri nefndarvinnu sem er fram undan. En ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með það að það hefur enginn gagnrýnt þetta fjárlagafrv. út frá sjónarmiðum umhverfisverndar, það er því ekki seinna vænna en að það sé gert og ég tek það að mér hér og nú.

Mig langar að byrja á að vitna til bókar sem kom upp í hendurnar á mér í sumar, herra forseti, og er skrifuð af bandarískum rithöfundi sem heitir Paul Hawken. Bókin sjálf heitir Vistfræði viðskiptanna og er afar fróðleg lesning og ég ráðlegg hæstv. fjmrh. að lesa þá ágætu bók, því ég er sannfærð um að það gæti bætt ýmsu við fjárlagafrv. næstu ára. Bókin heitir Vistfræði viðskiptanna eins og sagði og mig langar til að byrja á því að vitna til hennar vegna þess að fram hefur komið í umræðunni að bæði hæstv. fjmrh. og fleiri þingmenn hafa talað um börnin sín, því tel ég að þessi brýning sé afar þörf. En hér segir, með leyfi forseta:

,,Sjálfbærni er sú staða í efnahagslífinu þegar kröfunum til umhverfisins er mætt án þess að skerða getu þess til afurðamyndunar fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Henni má líka lýsa með einföldu orðalagi gullinnar hagfræðireglu hins uppbyggilega efnahagslífs: Skilaðu heiminum betri en þú tókst við honum. Taktu ekki meira en þú þarft. Reyndu ekki að skaða lífverur eða umhverfi og bættu fyrir ef það gerist.``

Herra forseti. Í fjárlagaumræðu fyrir ári síðan kom ég hér upp og ræddi um græn fjárlög, ræddi um græna þjóðhagsreikninga og grænar bækur sem farnar eru að fylgja fjárlagafrumvörpum annarra þjóða sem byggja löndin hér næst okkur. Við erum reyndar, herra forseti, með græn fjárlög. Það vill svo til að fjárlagafrv. er núna í grænni bók. Hins vegar er ekki margt sem ber umhverfisvernd vitni í frv. Þó verður að segjast eins og er að hér er ein síða --- þetta er uppáhaldssíðan mín í fjárlagafrv., hún er nr. 304 og má kannski hér eftir kalla hana grænu síðuna, hún er skyggð og hefur yfirskriftina Umhverfismál og ríkisfjármál. Þessi síða er kannski góðra gjalda verð og hún er ef til vill lykill að einhverju meira og ég treysti því að svo sé, þó svo að á þessari síðu gæti ákveðins misskilnings í sambandi við umhverfisskatta, því þar segir, með leyfi forseta:

,,Hér á landi eru þegar lagðir á skattar sem hafa áhrif á umhverfi og mengun þótt þeir hafi í upphafi aðallega verið lagðir á til að afla ríkissjóði tekna.``

Herra forseti. Hér eru vissulega lögð á gjöld og skattar sem menn tala um sem umhverfisgjöld, en þau eru það ekki á meðan þau renna ekki til umhverfisverndar eða viðhalds náttúrugæða. Umhverfisgjöldin sem hér er talað um renna beint í ríkissjóð, til almennra þarfa ríkissjóðs. Hér er ekki verið að tala um umhverfisgjöld í þeim skilningi sem alþjóðasamfélagið talar um umhverfisgjöld eða græna skatta. Mér sárnar það að á þessari grænu síðu skuli gæta þessa misskilnings að hér séu lögð á umhverfisgjöld, því það er ekki gert meðan umhverfið fær ekki að njóta þeirra gjalda.

Herra forseti. Í verkefnaskrá umhvrn. er lögð áhersla á að ýtt verði undir málefnalega umræðu og markmið og leiðir í umhverfismálum og í þessari umhverfisstefnu eða þessum verkefnavísum umhvrn. segir að nauðsynlegt sé að skoðað verði í samstarfi við fjmrn. að hvaða leyti umhverfisskattar geti komið í stað núverandi skatta. Þetta er nú allt og sumt sem segir í verkefnaskrá umhvrn. um umhverfisgjöld eða græna skatta.

En mig langar til að spyrja, herra forseti, hæstv. fjmrh. hvaða vinna sé í gangi á vegum fjmrn. og umhvrn. í þessu tilliti.

Það er kannski mögulegt að síða 304 í fjárlagafrv. sé til merkis um að eitthvert slíkt samstarf sé farið af stað og ég vona það sannarlega.

[19:00]

Ég verð samt að láta í ljósi ákveðin vonbrigði með hversu hægt gengur því með hverju árinu sem líður án aðgerða erum við eftirbátar annarra þjóða.

Í nágrannalöndum okkar eru stjórnvöld að vinna að því hörðum höndum núna að koma á þessum skilvirku umhverfisgjöldum. Og þó umhvrn. okkar sé að vinna gott starf að ýmsu leyti, ég nefni t.d. spilliefnagjald, gjald á einnota umbúðir, skilagjald og slíkt, þá getum við ekki státað af jafnumfangsmiklu starfi og nágrannalöndin. Ég get nefnt Þýskaland sem dæmi því þar hefur eins konar þróunarefnahagur verið búinn til. Þar er verið að endurskipuleggja efnahagslífið út frá umhverfisvernd. Ég held sannarlega, herra forseti, að þó við eigum stórt land og mikið af náttúruauðæfum, mikið af hreinu vatni, sé samt sem áður kominn tími til að endurskipuleggja efnahagslíf okkar og efnahagskerfið út frá sjónarmiðum umhverfisverndar. Og tíminn er núna, ekki á næsta ári eða eftir tíu ár.

Það er athyglisvert, herra forseti, þegar þessi mál eru skoðuð, að svo langt aftur sem á 116. löggjafarþingi, þ.e. veturinn 1992--1993, voru lögð fram mál sem fjölluðu um umhverfisskatta. Það sérstaka ár voru lögð fram tvö mál, till. til þál. um umhverfisskatta og till. til þál. um umhverfisgjald, þar sem lagt var til að Alþingi kannaði möguleika á því að umhverfisgjald yrði lagt á og þá umhverfisgjald sem hefði það að markmiði að efla umhverfisvernd og draga úr mengun.

Núna er árið 2000. Þessar tvær tillögur sofnuðu í nefnd, efh.- og viðskn. og umhvn. á sínum tíma. Árið 2000 erum við enn ekkert nær takmarkinu. Við erum ekkert nær því að brjóta upp okkar efnahagslíf eða skoða það út frá þessum sjónarmiðum sem þó þessar gömlu þáltill. fjalla um. Það er því ekki eins og þessum málum hafi ekki verið hreyft á hinu háa Alþingi.

Við vitum líka að hjá Ríkisendurskoðun eru a.m.k. tveir starfsmenn sem vinna fyrst og fremst við að móta stefnu á sviði umhverfisvænnar endurskoðunar. Ég hældi því framtaki hér í fyrra og hlakka til að sjá einhvers konar niðurstöður eða áfangaskýrslu í því máli því þar held ég þó að sé efniviður sem hæstv. fjmrh. getur líka nýtt sér til frekari uppskurðar á efnahagslífi okkar og til þess að innleiða grænan efnahag.

Herra forseti. Að lokum langar mig til að nefna leiðbeinandi klásúlu sem er að finna í álitsgerð auðlindanefndar, en það er á tveimur stöðum rætt um umhverfisgjöld eða græna skatta, þ.e. annars vegar í II. kafla og síðan er meira að segja í niðurlagsorðum auðlindanefndar vikið að umhverfisgjöldum og grænum sköttum. En í II. kafla álitsgerðarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Hagræn umhverfis- og auðlindastjórnun byggist á þeirri meginhugsun að neytendur og fyrirtæki sem losa úrgangsefni út í umhverfið eða ganga á náttúruauðlindir eigi að greiða hinn raunverulega kostnað sem þjóðfélagið hefur af starfsemi þeirra. Séu þessi gjöld rétt ákveðin knýja þau notendur umhverfis og auðlinda til að greiða þann kostnað sem athöfnum þeirra fylgir og hvetur þá um leið til að draga úr kostnaði og umhverfisspjöllum.

Gjöldum af þessu tagi hefur farið ört fjölgandi síðustu árin, bæði erlendis og hér á landi, og þau eru lögð á með ýmsum hætti. Sem dæmi má nefna beina skatta á mengandi eldsneytistegundir, gjöld sem miðuð eru beint við losun efna út í umhverfið, gjöld til að greiða fyrir hreinsun úrgangsefna og fyrir spjöll af námurekstri o.s.frv.``

Örlítið síðar í sama kafla segir, með leyfi forseta:

,,Smám saman er hins vegar að mótast heildstæðari afstaða á þessu sviði, bæði með þróun alþjóðasamvinnu og nýjum rannsóknum og fræðikenningum sem taka til auðlindamála í heild. Jafnframt hafa umræður um hlutverk og stöðu umhverfis- og auðlindaskatta innan skattkerfisins aukist mjög. Samdar hafa verið athyglisverðar skýrslur um þessi efni, bæði á Norðurlöndum og á vegum OECD. Hefur þá m.a. verið kannað að hve miklu leyti slík gjöld geta orðið til að draga úr annarri skattheimtu sem hefur neikvæð áhrif á hagvöxt og atvinnu. Hér á landi er heildarathugun af þessu tagi orðin mjög tímabær.``

Herra forseti. Ég tek undir þessi orð og hvet hæstv. fjmrh. til að taka þessi málefni til alvarlegrar athugunar. Á honum standa öll spjót með það. Hvatningarnar koma alls staðar að og það er ekki seinna vænna. Tíminn til að gera það er núna.