Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:11:33 (191)

2000-10-09 15:11:33# 126. lþ. 5.1 fundur 28#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra skuli einnig ofbjóða að sjá með hvaða hætti Ísraelsmenn hafa hagað sér á hernámssvæðunum á undanförnum dögum og vikum. Þó hefði mér kannski þótt betra að fá skýrari svör við því hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir. Nú er það þannig að við höfum lengi vel átt góð samskipti við Ísrael og eins og ráðherrann sagði og ég benti á í fyrirspurn minni höfum við líka styrkt uppbyggingu á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna í Ísrael. Ég hygg að þetta mál sé þannig vaxið að staðan sé í dag þannig að stríð gæti brotist út fyrir botni Miðjarðarhafs með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þá sem þar búa.

Ég hygg að það væri gott ef við fengjum eindregnari svör um það frá hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórnin muni beita sér sérstaklega í þessu máli.