Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:16:13 (195)

2000-10-09 15:16:13# 126. lþ. 5.1 fundur 29#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel að mín sjónarmið og ríkisstjórnarinnar hafi komið glöggt fram í svari mínu hér áðan og ég held að það út af fyrir sig hjálpi engum þó að ég sé með einhver stóryrði hér og felli stóra dóma. Þetta er mjög alvarlegt og hryllilegt mál eins og ég nefndi í svari mínu við fyrirspurn hv. 12. þm. Reykn. áðan.

Mér hefur borist bréf frá Barak, forsætisráðherra Ísraels, þar sem hann skýrir sína afstöðu og sjónarmið. Ég tel að þær skýringar sem þar eru gefnar séu fjarri því að vera fullnægjandi og ég tel, eins og ég hef sagt áður, að ef menn eigi að vega sök í þessum efnum sem er út af fyrir sig alltaf erfitt að gera úr fjarlægð þá séu það einmitt Ísraelsmenn sem hafa farið offari í málinu.

Ég hef alla tíð verið stuðningsmaður Ísraelsríkis en með sama hætti vil ég vera stuðningsmaður Palestínuríkisins. En mér finnst engum blöðum um það að fletta að í þessu dæmi og í þessu máli hefur Ísraelsstjórn farið offari. Það er ljóst að þeir telja mikið í húfi og þeir vilja kosta miklu til því að samkvæmt þeim fresti sem upp var gefinn og hv. fyrri fyrirspyrjandi vék að þá er ekki bara hótað vaxandi átökum heldur að bundinn verði endi, a.m.k. nú um langa hríð, á það friðarferli sem upphófst í Ósló sem við höfðum öll bundið svo miklar vonir við. Og auðvitað er það þyngra en tárum taki.

En ég sé ekki að það sé út af fyrir sig efni til þess að Ísland beiti sér fyrir því að þarna verði sendur friðarher. Ísland mun ekki skipa þann her eins og menn átta sig á og ég tel að við eigum ekki að vera að ofgera okkar hlutverk eða þykjast meiri en við erum. Það er þannig að sem betur fer er alþjóðasamfélagið núna að taka á þessu máli, Sameinuðu þjóðirnar og aðalritari þeirra, m.a. í okkar umboði auðvitað, Evrópusambandið fyrir sitt leyti eins og ég sagði og Solana framkvæmdastjóri þess sem er maður sem ég hef a.m.k. trú á. Ég er ekki viss um að hv. fyrirspyrjandi deili þeirri trú með mér.