Úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:26:27 (202)

2000-10-09 15:26:27# 126. lþ. 5.1 fundur 30#B úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja# (óundirbúin fsp.), SighB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að það kostar aðeins lítinn hluta af því sem það kostaði að vinna upprunalega þessa skýrslu að endurskoða hana og það var hægt að ljúka því verki á sínum tíma án þeirra vandkvæða að íslenska ríkið gæti ekki greitt þann kostnað. Ég vil líka benda á að hér er ekkert smámál á ferðinni vegna þess að ástæða er til þess að ætla að sú þróun í átt til fámennisvalds í íslensku atvinnulífi sem við sáum fyrir sex árum síðan hafi haldið áfram í auknum mæli. Það gengur ekki að svona vinna skuli ekki vera unnin með afsökun um að ekki sé hægt að útvega fjármuni til þess að kosta hana vegna þess að í millitíðinni hafa verið afgreidd hér fjárlög og þá var ekki fyrir þessu séð enda ekki rætt um það af þáv. viðskrh. að nein vandkvæði væru þar á.

Ég vil að gefnu tilefni spyrja hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra sagði að vinnan mundi hefjast á þessu ári. Er vinnan ekki hafin?