Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:13:46 (219)

2000-10-09 16:13:46# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki í sjónmáli nein óleysanleg vandamál af því tagi sem hv. þm. velti hér upp þó út af fyrir sig megi alveg velta þeim fyrir sér og þau skoðuðum við flm. að sjálfsögðu þegar við vorum að undirbúa þetta frv. á síðasta þingi. Ég ræddi það m.a. við nokkra af helstu sérfræðingum á þessu sviði hjá samböndum viðskiptabanka og sparisjóða og fleiri aðila.

Niðurstaðan sem hér er lögð til er skýr í sjálfu sér, að þetta taki til innlendra viðskiptabanka og sparisjóða sem hafa starfsleyfi, sem sagt innlendra bankastofnana. Þetta tekur þar af leiðandi ekki til erlendra banka sem hafa útibú eða starfsstöð á Íslandi sem þeim er heimilt samkvæmt lögum og samningum án þess þó að hafa aðsetur hér sem innlend lánastofnun. Að að því leyti eru mörkin skýr, hygg ég, að útibú erlends banka eða starfsstöð hér er óháð þessum breytingum. Þetta tekur sömuleiðis til lánastofnana sem starfa samkvæmt lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lögum nr. 123/1993, og eru að því leyti öðruvísi en viðskiptabankar og sparisjóðir að þær taka ekki við innlánum og hafa ekki starfsleyfi sem bankar.

[16:15]

Það má spyrja hvort þarna séu ekki einhver grá svæði þegar kemur svo aftur yfir í tryggingafélög eða stórmarkaði eða ýmsa aðra sem út af fyrir sig í tilteknum skilningi lána fé, en sá er munurinn að þær stofnanir starfa ekki eftir lögum um viðskiptabanka og sparisjóði eða fjármálastofnanir. Þar eru þau mörk sem ég held að eðlilegast sé að draga í þessum efnum. Það sem menn væru þá að ná fram er að tryggja dreifða eignaraðild í þessum mikilvægu fjármálastofnunum þó að einhverjir aðrir aðilar séu síðan í þjóðfélaginu sem í vissum skilningi stundi lánastarfsemi, þá held ég að það ætti ekki að þurfa að skapa vandamál vegna þess að þeir uppfylla ekki eða hafa ekki kosið að starfa á grundvelli þeirra laga sem hér er verið að leggja til breytingar á.