Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:15:58 (220)

2000-10-09 16:15:58# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var kannski að velta fyrir mér og benda á var að þróunin á þessu sviði er býsna hröð og sú þróun mun örugglega halda áfram og að bankarnir þurfa í auknum mæli að keppa við ýmsa aðra aðila um ekki bara lánastarfsemi heldur innheimtuþjónustu og þjónustu af ýmsu tagi. Það verði því býsna mörg grá svæði þarna á milli þeirra sem annars vegar heyrðu undir þessa takmörkun og hinna sem ekki gerðu það, og einnig þegar haft er í huga að erlendir bankar mundu ekki falla undir þetta. Þess vegna veltir maður því fyrir sér, og ég ber fram þá spurningu til hv. þm., hvort það muni þá ekki verða þannig að hið íslenska fjármagn sem hefur hafið útrás til annarra landa eigi afturkvæmt í formi þess að stofna fyrirtæki á Íslandi sem þurfi ekki að vera undir sömu reglum og aðrir sem hér reka starfsemi.