Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:22:54 (224)

2000-10-09 16:22:54# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum. Flutningsmenn eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson. Almennt vil ég segja um frv. að ég tel fulla ástæðu til að flytja frv. sem þetta og skil ákaflega vel hugsunina sem liggur þar að baki. Viðskrn. hefur á undanförnum missirum aflað gagna erlendis frá um takmarkanir á atkvæðisrétti og eignarhaldi í bönkum. Þessi vinna er í tengslum við stefnumótun um sölu banka í eigu ríkisins og verður henni haldið áfram í ráðuneytinu.

Meginreglan erlendis er að ekki eru settar takmarkanir á eignarhlut í lánastofnunum aðrar en þær að eigendur að virkum eignarhlut þurfa að standast hæfisskilyrði eftirlitsaðila en sú regla er þó ekki án undantekninga því að t.d. í Noregi og í Kanada eru í gildi strangar reglur um hámarkseignarhlut og er það í því skyni að um dreifða eignaraðild skuli vera að ræða í bönkunum, en svo eru líka til ríki þar sem vissar takmarkanir eru á eignarhaldi þó að ekki sé sett þak á eignarhlut hvers eiganda.

Eflaust má finna ýmis rök með þessum hugmyndum og líka á móti. Ef við lítum á rök sem eru með eigendatakmörkunum, þá geta þau verið þau að hluthöfum er gert erfiðara um vik að ná virkum yfirráðum í banka og það eru alla vega meiri líkur á því að dreifð eignaraðild náist og reglur sem þessar koma í veg fyrir að eignarhald á bönkum verði samofið og samkeppni þar af leiðandi minni. Með þeim hætti er komið í veg fyrir óeðlileg ítök fárra stórra aðila. En rök sem gætu verið á móti eigendatakmörkunum eins og hér um ræðir eru t.d. að flóknar reglur kalla á erfiðara, dýrara og ómarkvissara eftirlit. Reglur sem hamla frjálsum viðskiptum gætu leitt til lægra verðs og þær gætu líka leitt til þess að um minni áhuga erlendra fjárfesta yrði að ræða. Reglur sem þessar gera eða gætu gert bönkunum erfitt um vik að fara í nauðsynlegar hagræðingar.

En þetta er eitt af þeim málum, eins og ég sagði í upphafi, sem eru til athugunar og umfjöllunar í viðskrn. og verða það áfram og ég efast ekkert um að hv. efh.- og viðskn. mun fjalla um þetta mál eins og mörg önnur mál. Hv. þm. kvartaði frekar yfir verkefnaskorti í nefndinni og þykir mér það leitt en ég skal sjá til þess að hún muni hafa ærinn starfa í vetur. Mér sýnist allt benda til þess.