Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:28:33 (226)

2000-10-09 16:28:33# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það hreint ekki vera svo merkilegar upplýsingar sem hér komu fram en ítreka að þessi mál eru til athugunar og hafa verið í þó nokkuð langan tíma í viðskrn. Í fyrsta lagi hvort ástæða sé til að setja í lög ákvæði sem tryggi dreifða eignaraðild eða séu hugsuð til þess. Í öðru lagi hvort ástæða sé til að fara í aðgerðir sem þessar og þá hvernig það yrði gert.

Þetta mun eflaust tengjast þeirri umræðu sem ég vænti að eigi eftir að koma á hv. þingi síðar í vetur um frekari sölu á eign ríkisins í Búnaðarbanka og Landsbanka. Eins og allir vita eru ákvæði um það í stjórnarsáttmála að halda áfram sölu á eignarhlut ríkisins í þeim bönkum. En hvort tryggt verði að ekki verði farið út í sölu fyrr en þetta liggi fyrir, þá vil ég segja við hv. þm. að þetta eru stór mál og ég reikna með að í tengslum við frekari aðgerðir á þessu sviði verði lagðar fram tillögur af hálfu viðskrn. sem hnigi í þá átt að dreifa eignaraðildinni.