Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:35:54 (232)

2000-10-09 16:35:54# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er algjörlega ástæðulaust að setja á langar tölu því að það liggur fyrir að ráðherrann mun greiða fyrir því að mál af þessu tagi verði afgreitt í efh.- og viðskn. núna fljótlega og hefur lýst áhuga sínum á því. Ég ítreka að ég heyrði hann segja það áðan, hæstv. ráðherra, að þau mál þyrfti að afgreiða áður en um frekari sölu yrði að ræða. Ég tek mark á því sem hæstv. ráðherra segir þangað til annað kemur í ljós sem ég trúi ekki að muni gerast.

Það er ekki að ástæðulausu sem þetta frv. er flutt. Það segir sig sjálft og hv. flutningsmaður hefur lýst þeim ástæðum. En hann hefur líka sjálfur sagt að ýmsar aðrar aðferðir komi til greina til að ná sama takmarki. Meginatriðið er, eins og kom áðan fram í máli hans í andsvari við ráðherra, hvaða aðgerðum eða aðferðum menn geta beitt til að takmarka ráðandi áhrif fárra í fyrirtækjum. Ekki er endilega víst að besta aðferðin til þess sé að setja lög sem takmarka heimildir manna til að kaupa og selja. Það er einu sinni þannig ef það er vilji tveggja aðila hvar annar á og hinn er reiðubúinn til að kaupa, til viðskiptanna, þá er mjög erfitt að koma veg fyrir það að þau geti farið fram. Það sáum við best af reynslunni sem við fengum af sölu hlutabréfanna í FBA á sínum tíma og raunar í fleiri sölum að í orði kveðnu sagðist þjóðin styðja dreifða eignaraðild en þegar á reyndi voru þúsundir og jafnvel tugir þúsunda manna tilbúnir til þess að semja beint eða óbeint við tiltölulega fáa aðila um að kaupa í þeirra nafni og selja þeim svo eða afhenda svo vegna þess að viðkomandi gátu hagnast um nokkur þúsund krónur á viðskiptunum. Í þeim skiptum kom í ljós að það er ekki alltaf það sama sem fólk segir og það sem fólk gerir. Ef ágóði er í boði, jafnvel þó hann sé ekki mikill, og vilji til viðskipta eru miklar líkur á því að viðskiptin geti farið fram.

Spurningin er auðvitað sú hvort leiðin til þess að koma í veg fyrir ráðandi áhrif fárra aðila á fjármálastofnanir sé að beita aðgerðum í lagasetningu sem er mjög erfitt að framkvæma. Það er mjög erfitt að koma í veg fyrir það með lagasetningu ef tveir aðilar vilja eiga viðskipti að þau viðskipti fari fram og alveg sama í hvaða lagasetningu það er.

Bannað er að framleiða og selja heimabruggað áfengi á Íslandi en engu að síður er það gert og þau viðskipti fara fram vegna þess að til eru aðilar sem vilja kaupa og aðrir aðilar sem eru reiðubúnir til að selja. En það er bannað. Hættan er sú að ef á að reyna að ná tökum á málunum með þeim hætti þá finni menn sér einfaldlega leið fram hjá. Því varaði ég líka við þegar sambærileg ákvæði voru sett í lög um stjórn fiskveiða.

Hér stendur t.d., svo maður taki dæmi, að skyldir eða fjárhagslega tengdir aðilar skuli teljast hjón eða sambýlisaðilar. En nú vill svo til að dómur liggur fyrir um það að karl og kona sem bjuggu í sömu íbúð og áttu börn saman töldust ekki vera sambúðaraðilar. Það að þau byggju í sömu íbúð og væru foreldrar að sömu börnum nægði ekki til að sanna að þau væru sambýlisaðilar.

Og eins er ákvæðið í tölulið 2:

,,Skyldmenni í beinan legg, bræður eða systur, systkinabörn, systkini föður eða móður eða tengdir aðilar með sama hætti ...`` o.s.frv. Þetta er svipað eins og maður gæti hugsað sér að lesa að forskrift að genagreiningu hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hvað ef hægt er að sanna skyldleikatengsl á milli tveggja aðila sem menn töldu áður að væru óskyldir? Ber þá að beita þessu ákvæði og skylda annan aðilann eða báða til þess að selja hlut sinn? Þetta er mjög erfitt í framkvæmd.

En hugsunin og tilgangurinn er af því góða. Þá er spurningin --- ég vildi einfaldlega koma þessu sjónarmiði á framfæri áður en nefndin hefur störf sín, sem ég vænti að hún muni gera fljótlega og afgreiði mjög hratt eftir ótvíræða stuðningsyfirlýsingu hæstv. viðskrh. --- hvort leiðin sé ekki frekar sú, sem er raunar lagt til í 2. mgr. 1. gr. frv., að takmarkað sé atkvæðavægi þess hlutafjár sem menn geti hugsanlega eignast. Þ.e. þó svo menn eigi hlutafé, jafnvel meiri hluta hlutafjár, fylgi því ekki nema takmarkaður atkvæðisréttur. Þá eru auðvitað áhrifin sem menn eru að sækjast eftir fyrst og fremst með hlutabréfaeigninni en ekki endilega hlutabréfaeignin sjálf. Ef menn eru fyrst og fremst að hugsa um að reyna að takmarka óeðlileg áhrif og yfirráð fárra aðila yfir fyrirtækinu, sem er megintilgangur flutningsmanna að mínu mati og er alveg 100% réttur, kann að vera að það sé betri leið að takmarka þau áhrif ekki með því að reyna að setja lög sem er mjög erfitt að framkvæma um hvað megi selja og hvað megi kaupa heldur að setja einfaldlega lög um það að hvað sem líður hlutafjáreign geti atkvæðisréttur aldrei farið yfir visst mark.

Þessu vildi ég aðeins kasta fram, virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega önnur aðferð til að ná sama takmarki og hv. flutningsmenn eru að stefna að sem er gott takmark og þarft. Eftir að hafa fengið stuðning frá hæstv. viðskrh. er náttúrlega alveg ljóst að það sem mun þurfa að gera er að leita að bestu leiðinni. Það kann að vera að þessi leið sé sú besta og ekki verður síður ánægjulegt að fá upplýsingar um alla þá upplýsingaöflun sem hefur átt sér stað af hálfu ríkisstjórnarinnar né heldur að vita það hversu öflugan bandamann þetta sjónarmið á sér í sjálfum forsrh. sem hefur hvað eftir annað lýst þeim vilja sínum að komið sé í veg fyrir það að fáir aðilar --- ekki síst aðilar af ákveðnu sauðahúsi --- nái undir sig ráðandi ítökum í íslenskum fjármálafyrirtækjum.