Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:44:16 (234)

2000-10-09 16:44:16# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér varð ekki ljóst fyrr en núna að mögulegt væri kaupa atkvæði hv. þm. Það er ágætt að vita af því að sá möguleiki er opinn. En eins og hann varpaði ljósi á með þessu dæmi sínu, sem ég tel að hafi nú ekki verið tilboð til mín um slík viðskipti, ég tek það ekki svo, eins og hann sýnir fram á með dæmi sínu þá eru auðvitað gallar á þeim leiðum sem tiltækar eru til að reyna að takmarka völd og áhrif. Það eru t.d. þeir gallar að það getur verið mjög erfitt að fá ríkisstjórnir til að vinna úttekt á hvernig þróunin er á slíkum tengslum. Það getur líka verið erfitt að setja lög sem tryggja að áhrifin séu ekki of mikil. Þess meiri ástæða er til að skoða allar leiðir sem koma til greina og velja síðan þá bestu. Nú vildi ég gjarnan fá að vita frá hv. þm. hvað hann leggur til til þess að tryggja að þetta sameiginlega markmið hæstv. forsrh., hæstv. iðnrh. og okkar úr stjórnarandstöðunni náist.