Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:46:23 (236)

2000-10-09 16:46:23# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú lóðið að virk samkeppni á ekki alltaf upp á pallborðið hjá þeim sem ráða í landinu. Það er hluti virkrar samkeppni að tryggja að þjóðin viti hvort um sé að ræða óeðlilegan samruna valda og yfirráða í íslensku atvinnulífi. Á það hefur skort að menn gerðu síðustu sex ár. Það er líka í þágu virkrar samkeppni að Samkeppnisstofnun sé treyst til þess af stjórnvöldum að vinna sín verk eins og hún á að vinna þau, í friði, t.d. hvað varðar rekstur stofnunar eins og Landssíma Íslands. Það hefur nú heldur betur verið brestur á því. Brestir eru því víða.

Hlutverk okkar alþingismanna er að reyna að setja sanngjörn og réttlát lög. Það er vissulega erfitt eins og hv. þm. veit, sem hefur flutt margar góðar tillögur um mörg góð mál á Alþingi sem engar hafa náð fram að ganga, enda er hann orðinn bæði sár og mæddur yfir þeirri lífsreynslu sinni. Engu að síður, herra forseti, ber okkur skylda til að reyna eins vel og við getum.