Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:00:15 (238)

2000-10-09 17:00:15# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég áttaði mig ekki á öllu sem fram kom í ræðu hv. 2. flm. málsins sem við ræðum hér nú, þ.e. um að tryggja dreifða eignaraðild í fjármálastofnunum. Ég hef alltaf skilið málflutning hv. þm. þannig að hann vilji ekki einkavæða eða breyta eignarhaldi á umræddum stofnunum úr ríkiseign í einkaeign. Ég hef ætíð skilið hv. þm. þannig og því er í sjálfu sér sérstakt að menn skuli um leið flytja frv. til þess að tryggja þetta fyrirkomulag. Það er að mínu viti einhvers konar yfirlýsing um að fyrri afstaða hv. þm. sé minnihlutaviðhorf og við þeirri stöðu þurfi að bregðast.

Enn fremur, virðulegi forseti, áttaði ég mig ekki alveg á því er hv. þm. talaði um að hér hefði orðið sérstaklega mikil samþjöppun, sem er hárrétt að orðið hefur á ákveðnum sviðum. Það breytir ekki hinu að viðskiptasagan hefur meira og minna alla þessa öld byggst á helmingaskiptum, þ.e. að annars vegar hafi Sambandið sáluga, á meðan það var og hét, og hins vegar önnur öfl sem kennd hafa verið við kolkrabbann tekist á alla öldina. Þannig mætti fullyrða að samþjöppun hafi viðgengist í íslensku viðskiptalífi alla öldina.

Að lokum, virðulegi forseti, virtist mér hv. þm. gera athugasemdir, í dæmi sem hann tók, við framgang stofnunar sem er að 70% í eigu ríkisins. Virðulegi forseti, ég næ ekki alveg samhenginu í málflutningi hv. þm. og bið hann því að skýra þetta ögn betur.