Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:11:17 (244)

2000-10-09 17:11:17# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. viðsk.- og iðnrh. segir að það sé ekkert sérstaklega góð reynsla af stjórnmálamönnum. Ég held að það sé ekki hægt að alhæfa um það. Ég skal ekki fjölyrða neitt um framsóknarmenn sérstaklega í því efni en þetta eru alhæfingar sem ég tel að gangi ekki.

Ég var hér að vísa í ákvörðun sem ekki er aðeins peningalegs eðlis heldur pólitísk. Þetta hefur skírskotun til efnahagslífs okkar og íslensks samfélags. Mér finnst ekki hægt að skjóta sér undan ábyrgð á þennan hátt. Þess vegna spyr ég: Getur verið að þessi pólitíska ákvörðun hafi ekki verið rædd, ekki komið til umræðu hjá þeim aðila sem fer með hlutabréf þjóðarinnar í bankanum? Var hún ekkert rædd? Vissi ráðherrann ekkert af henni? Las hæstv. ráðherra e.t.v. um hana í blöðum?

Ég veit að mörgum stjórnmálamönnum finnst erfitt að taka ábyrgð á málefnum af þessu tagi og þykir auðveldara að koma stofnunum í hlutafélagsform og síðan út á markað til að þurfa ekki að ræða þá hluti hér. Ég veit það. Þetta hefur gerst með Fríhöfnina t.d. Fyrsta skrefið hefur verið stigið til þess að koma henni á markað og undan þeirri skyldu að ræða hana hér á lýðræðislegum vettvangi. Nú lýsir hæstv. ráðherra því yfir að æskilegt sé að koma þessum fjármálastofnunum frá okkur líka, frá handhöfum almannavalds hér í þinginu.

Mér finnst þetta sannast sagna undarleg pólitísk skoðun, þetta er hörð frjálshyggjuskoðun sem hér er haldið fram af talsmanni Framsfl.