Upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:33:40 (250)

2000-10-09 17:33:40# 126. lþ. 5.11 fundur 11. mál: #A upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög jákvæðar undirtektir hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Ég er hjartanlega sammála því sem fram kom í málflutningi hennar. Það kom mér ekkert mjög á óvart að Pétur H. Blöndal vildi sjá einhverjar glufur í þessu máli og vankanta og við erum þess mjög meðvituð sem styðjum þetta að þetta er ekkert einfalt mál. Því fer fjarri að þetta sé einfalt mál. Við tókum það fram, bæði ég og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, að erfitt væri að koma Tobin-skatti á ef ekki ríkti um það alþjóðleg samstaða, nákvæmlega eins og að ekki er hægt að koma í veg fyrir gloppur í hinu alþjóðlega skattkerfi, eða hinu þjóðlega skattkerfi öllu heldur, ef ekki ríkir alþjóðleg samstaða um að útrýma skattaparadísum. Það er reyndar málefni sem verður hér til umræðu á morgun.

Engu að síður vinna menn að því að skapa slíka samstöðu. Það hefur t.d. verið gert á vettvangi OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Fyrir tveimur árum var þar gerð samþykkt um skattaparadísir sem var síðan tekin aftur til skoðunar á fundi OECD í sumar, í júnímánuði. Þar telja menn að smám saman sé að aukast fylgi við þá hugsun að á alþjóðavísu beri okkur að sýna ábyrgð í þessum efnum og til þeirrar ábyrgðar erum við að hvetja með þessari þáltill.

Ég mun að sjálfsögðu fara yfir þá útreikninga sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði athugasemd við.

Nú mun þessi þáltill. væntanlega fara til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þingsins og þaðan til umsagnar í þjóðfélaginu. En einu get ég lofað mönnum, að þessari umræðu er ekki lokið.