Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:59:15 (261)

2000-10-10 13:59:15# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er með ólíkindum að hlusta hér á stjórnarandstæðinga ræða um að vandi landsbyggðarinnar í samgöngumálum séu Sjálfstfl. að kenna. Ég veit ekki betur en að þingmenn dreifbýlisins hafi tekið undir þá meginstefnu sem fyrrv. samgrh. Halldór Blöndal og hæstv. núv. samgrh. Sturla Böðvarsson hafa haldið við uppbyggingu samgangna, þ.e. að leggja áherslu á þrennt: flugvelli, hafnir og vegi. Um það hafa allir verið sammála.

[14:00]

Síðan koma menn hér núna og segja að ekki sé hægt að leggja á hina dreifðu byggð slíkt óöryggi sem felist í því að nota minni flugvélar, allt niður í níu sæta miðað við 40 sæti áður, það sé bara ekki hægt.

Í viðræðum við Flugmálastjórn í samgn. fyrir nokkrum dögum var einmitt þetta mál ítarlega rætt og þar komu fullyrðingar um það frá þeim mönnum sem gerst þekkja og hafa vit á að níu sæta flugvélar séu síst óöruggari en þær stærri. Öryggi í flugi er með þeim hætti. Síðan segja menn að Strætisvagnar Reykjavíkur séu styrktir o.s.frv. Ég veit ekki betur en hagræðing hafi átt sér stað hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Þar sem eru litlir fólksflutningar eru notaðir minni vagnar.

Það er líka annað sem mikið hefur verið rætt um, þ.e. jarðgangagerð. Nú stendur hún til. Hvar ætla menn að enda? Hvaða kröfur ætlar hin dreifða byggð að gera til samgöngumála? Í bréfi sem þingmenn hafa fengið frá Flugfélagi Íslands segir að vetraráætlun Flugfélags Íslands hafi tekið gildi 1. október og hér með sé sent eintak af henni. Og litlar breytingar hafa orðið hvað varðar flugtíðni til áfangastaða innan lands. Flugfélag Íslands hefur ekkert látið af þjónustu við hina dreifðu byggð.

Ég endurtek það sem hér hefur verið sagt og komið margsinnis fram. (Forseti hringir.) Flugvellir, hafnir og vegir eru þau samgöngutæki sem við þurfum að horfa á þegar tekin er ákvörðun um hvert eigi að fella flug. (KLM: Við þurfum að nota flugvellina.)