Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:03:57 (263)

2000-10-10 14:03:57# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það hefur verið athyglisvert við þessa umræðu að engin gagnrýni kemur fram á það sem verið er að gera í því að styrkja innanlandsflugið um þessar mundir með útboði, með beinum ríkisstyrkjum til tiltekinna leiða þannig að ég lít svo á að samgrn. sé á réttri leið.

Hins vegar var verið að ræða hér um atriði sem í sumum tilvikum eru byggð á fölskum forsendum. Hv. málshefjandi leggur málflutning sinn upp út frá því að verið sé að leggja á 60 millj. á ári í flugleiðsöguskatt á flugið. Það er rangt. Kostnaðurinn við flugleiðsöguna er 200 millj. Samkvæmt fjárlagafrv. eru 30 millj. ætlaðar í innheimtan skatt af flugleiðsögugjaldi á næsta ári. 15 millj. fara vegna kostnaðar við veðurathuganir og upplýsingar um veður. Það er því nauðsynlegt að menn gangi út frá réttum forsendum hvað þetta varðar.

Engin skýr stefna, segja menn hér. Stefnan er alveg skýr. Ég legg áherslu á að efla flugið til þeirra staða sem standa vel undir sér og styrkja áætlunarflugleiðir út frá þeim stöðum eins og við erum að gera núna í útboðinu.

Hvað það varðar hvort unnið sé að stefnumótun, þá er að sjálfsögðu unnið í samgrn. að því að skipuleggja samgöngukerfið í landinu í heild sinni, bæði vegi, flugvelli og annað. Útboð á þessum flugleiðum er fyrsta skrefið í mjög mikilvægum aðgerðum okkar til að styrkja almenningssamgöngukerfið í landinu, ekki til þess að það standi algerlega og falli (Forseti hringir.) með því að ríkisstyrkir séu þar á ferðinni, heldur til að skapa eðlileg skilyrði til að þjóna hinum dreifðu byggðum, bæði með flugi og almenningssamgöngum. Það er klár og skýr stefna af minni hálfu.