Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:27:22 (268)

2000-10-10 14:27:22# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Nú kannast ég betur við mitt heimafólk. Þarna var nú hv. þm., 2. þm. Vestf. --- nema hann sé 3. þm. núorðið --- líkari því sem ég hef áður kynnst honum fyrr á árum, mikill meistari í því að skylmast með þessum hætti.

Ég vil nú fyrir það fyrsta, svo enginn misskilningur sé uppi í þeim efnum, hryggja hv. þm. með því að ég er enn þeirrar skoðunar að það eigi að segja upp aðild okkar að NATO og herverndarsamningnum og hef alla tíð verið. Ég sé náttúrlega enn síður nú nokkrar ástæður til að púkka upp á það batterí allt saman en áður hefur verið enda er þar um alls ósambærilega hluti að ræða og hitt hvernig viðskiptasamningum og samskiptum okkar við mikilsverð markaðssvæði okkar allt í kringum okkur er háttað. Staðreyndin er sú að EES-samningurinn var framlenging á hlutum sem voru þegar að miklu leyti samningsbundnir. Ég veit að hv. þm. man eftir svonefndri bókun 6 og öðrum hlutum sem voru sá viðskiptalegi grundvöllur sem samskipti okkar við þessa markaði byggðu áður á. Að sjálfsögðu henda menn því ekki bara frá sér án þess að einhver undirbúningur sé fyrir hendi hvað það varðar sem við tekur.

Þá teljum við að það skipti einmitt miklu máli að stefnumótun, meginlínur af því tagi sem hér eru stafaðar út, liggi fyrir. Það má vel taka það praktíska dæmi sem menn hafa oft velt upp í umræðunni að Noregur gengi í Evrópusambandið, sem ég vona nú að vísu að verði ekki, þá hafa menn sagt: Ja, þá er EES-samningurinn í uppnámi, þá er augljóst mál að stofnanaþáttur hans er hruninn því ekki munum við Íslendingar nánast einir með Liechtenstein bera uppi allan rekstrarkostnað þessara stofnana. Gott og vel, en er þá ekki einmitt nauðsynlegt að við vitum hvað við viljum gera? Þá er svarið hér: Við viljum við einhverjar slíkar aðstæður þróa þessi samskipti áfram í átt til einfaldari tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.