Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:29:45 (269)

2000-10-10 14:29:45# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég játa það að þegar ég hef rennt yfir þessa tillögu sem ég hef nú kannski ekki haft nægilegan tíma til að gera þá varð ég afskaplega undrandi.

[14:30]

Mér vitanlega hefur íslensk utanríkisstefna fram á þennan dag, og ég veit ekki betur en um það hafi verið bærileg sátt, grundvallast á virkri þátttöku í starfsemi ríkjabandalaga. Þegar ég tala um ríkjabandalög þá er ég líka að tala um ríkjabandalög eins og Sameinuðu þjóðirnar. Ég vil þó ekki hártoga þetta á nokkurn hátt, ég skil hv. flm. ekki svo að hann eigi við þær en Sameinuðu þjóðirnar eru hins vegar ríkjabandalag, Norðurlandaráð er ríkjabandalag, ÖSE er ríkjabandalag, NATO er ríkjabandalag. (SJS: Ég talaði um ríkjasamband ... ) Þetta eru líka ríkjasambönd, Norðurlandaráð er ríkjasamband, Sameinuðu þjóðirnar eru ríkjasamband. Það er náttúrlega nauðsynlegt að tala skýrt um þetta og þetta eru ekkert annað en ríkjasambönd.

Hér er gjarnan talað um fullveldi og sjálfstæði en í mínum huga höfum við Íslendingar barist fyrir fullveldi og náð fullveldi til að vera fullgildir þátttakendur í samfélagi þjóðanna og vegna þess að við töldum að þar væru hagsmunir okkar. Til þess vorum við að berjast fyrir fullveldinu.

Nú lifum við á tímum mikillar alþjóðavæðingar. Þá kemur spurningin: Viljum við Íslendingar taka þátt í þeirri alþjóðavæðingu með þeim kostum og göllum sem því fylgir?

Ég skynja tillögu hv. þingmanna þannig að þeir vilji ekki taka þátt í þessari alþjóðavæðingu, þeir vilji standa utan hennar. Þeir vilja að Ísland standi utan hennar. Það var staðfest hér áðan að hv. þingmenn vilja að við segjum okkur úr Atlantshafsbandalaginu, þeir vilja segja upp herverndarsamningnum. Það kemur hins vegar fram að þeir vilja auka samskipti við Bandaríkin á viðskiptasviðinu. Ég tel því að hér séu að ýmsu leyti miklar mótsagnir.

Þegar maður les þetta þá stendur maður frammi fyrir þessari grundvallarspurningu varðandi fullveldi: Hvers virði er fullveldi ef við munum einangrast frá öðrum ríkjum í stað þess að vera stoltir þátttakendur í samstarfi fullvalda ríkja eins og við höfum verið? Er það ekki það sem við viljum?

Er það hins vegar ekki alveg ljóst að miðað við alþjóðavæðinguna erum við ekki fær um það sem fullvalda þjóð, ein og óstudd, að leysa þau vandamál sem steðja að fullvalda ríki nú á tímum? Ég held að það sé alveg ljóst að miðað við aðstæður í dag þá getum við ekki leyst ýmis vandamál nema í samstarfi og samvinnu við aðrar þjóðir. En með því erum við ekki að afsala fullveldi okkar. Við erum að styrkja fullveldi okkar. Með því vinnum við að hagsmunum okkar fólks og það gerum við best í samstarfi við aðrar þjóðir. Þetta finnst mér mikið grundvallaratriði.

Það verður náttúrlega að spyrja hv. flm. hvort þeir vilji virkilega að sá tilgangur sem virðist birtast í máli þeirra nái fram að ganga og hvort þeir geri sér grein fyrir því hvað það muni þýða fyrir íslenskt þjóðfélag, sem er náttúrlega ekkert annað en að einangra það á alþjóðavettvangi. Ég veit að hv. þingmenn vilja endurspegla skoðanir sem komu fram hjá Alþb. á sínum tíma, hjá gamla Sósíalistaflokknum, en Sósíalistaflokkurinn vildi þó, a.m.k á sínum tíma, efla samskiptin við Sovétríkin. Hann gekk þó það langt. Að vísu eru Sovétríkin ekki lengur til þannig að það þýðir nú ekki að tala um það. (SJS: Einstaklega málefnalegt.)

Ég tel, af því að hv. þm. talar um málefnin, að margt í þessari tillögu sé langt frá því að vera málefnalegt og held að þegar hv. þm. les skýrslu utanrrh. þá lesi hann hana ekki með réttum gleraugum. Hv. þm. ræðir um margt þar með þeim hætti að mér finnst það ekki algjörlega í lagi. En það er nú ekki tími til að fara hér út í það. (Gripið fram í: Dæmi?) Ja, t.d. kvótahopp, svo ég nefni dæmi, og niðurstöðu Evrópudómstólsins og skýrslur í Bretlandi um þau mál. Ég get nefnt það sem eitt dæmi og ég get nefnt fleiri dæmi.

Ég get líka nefnt sem dæmi, af því að það er eitt aðalatriðið í þessari tillögu, að við eigum að fara að fordæmi Svisslendinga, að það liggur alveg ljóst fyrir að Svisslendingar hafa með samningum sínum gengið mun lengra í að selja sig undir vald yfirþjóðlegra stofnana ESB en þekkist í EES-samningnum, til að mynda á sviði samgöngumála, þó hv. flm. segi að þeir hafi ekki gert það. Það liggur líka fyrir varðandi samning Sviss að á sviði dýraheilbrigðisreglna hafa Svisslendingar enn fremur skuldbundið sig til að láta ekki hagstæðari reglur gilda í viðskiptum sínum við önnur ríki en ESB þrátt fyrir að þau njóti ekki fullrar niðurfellingar á dýraheilbrigðiseftirliti á landamærum ESB eins og þekkist í EES-samningnum. Ég tel að ekki sé rétt að vitna til þessara samninga með þeim hætti sem hv. flm. gera.

Það er mjög margt erfitt í þessu máli. Við getum ekki eytt óvissunni um það. En það er lágmark að við ræðum þessi mál eins og þau blasa við. Ég tel það skyldu utanrrh. að gera svo og það hef ég gert. En ég sé hins vegar að í grg. kemur fram gagnrýni á að ég skuli hafa leyft mér að vekja athygli á ýmsum vandamálum sem þarna er við að etja. Ég tel að ef ég gerði það ekki væri ég að bregðast skyldum mínum. En hér, segir, með leyfi forseta:

,,Hlýtur málflutningur núverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, að vekja furðu því að engu er líkara en að hann hafi tekið sér fyrir hendur að sannfæra alla sem málið varðar um bága og versnandi stöðu Íslands innan EES.``

Það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að staða okkar innan EES er ekki nákvæmlega sú sama og var í upphafi og það er margt sem er að breytast. Er það ekki skylda utanrrh. að vekja athygli á því, eða hvað?