Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:57:52 (276)

2000-10-10 14:57:52# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki er þetta heldur alveg rétt með farið. Það var nefnilega ágreiningur um aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum. Íslandi bauðst að gerast stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum gegn því skilyrði að Ísland lýsti yfir stríði gegn möndulveldunum. Því höfnuðu allir stjórnmálamenn á Íslandi nema fulltrúar eins flokks sem lögðu það til að Íslendingar lýstu yfir stríði á hendur þeim sem höfðu tapað seinni heimsstyrjöldinni. Og fulltrúar hvaða flokks voru það? Ég ætla ekki að rifja það upp hér, en ég býst við að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon viti vel af þessu og kannist vel við það.

Herra forseti. Ef þessi tillaga fjallar bara um það að Ísland eigi ekki að verða 51. fylki Bandaríkjanna eða gerast aðili að Evrópusambandinu, af hverju orðar hv. flm. þá ekki tillöguna þannig? Af hverju orðar hann tillöguna þannig að Ísland eigi að standa utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda en segir jafnframt að það beri ekki að skilja þetta svo að Ísland eigi að segja sig úr EFTA eða segja upp aðildarsamningum sínum um EES? Af hverju orðar hv. þm. hugsun sína eins og hann gerir í tillögugreininni eða ber ekki að skilja tillögugreinina svo að Ísland eigi að segja sig úr EFTA og segja upp EES-samningnum eins og hv. þm. hefur sagt sjálfur að hann telji að ekki eigi að gera?

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég segi. Það verður að taka tillöguna alvarlega eða ég hélt að taka ætti hana alvarlega. En ég er kominn á þá skoðun núna að það eigi ekki að taka hana alvarlega vegna þess að hv. flm. segir að hann meini ekki það sem hann segir heldur eitthvað allt annað og hann segir líka að það beri ekki að taka mark á því sem hann segir því hann meini það ekki að hann ætli sér að segja upp þeim aðildarsamningum sem hann hefur þó verið á móti. Og hann bætir við og segir að hann muni umbera það, hann muni ekki leggja þessa stefnu fram sem afdráttarlausa kröfu síns flokks í stjórnarmyndunarviðræðum. Með öðrum orðum að hann meini ekki það sem hann segir.