Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:11:56 (280)

2000-10-10 15:11:56# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að það er mikill skaði að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir skuli ekki vera í skapi til að gera að gamni sínu, og sérstaklega að koma með þessa gamansömu samanlíkingu við Enver Hoxha, sem ég gef mér þá að hv. þm. sé vel að sér um úr því hv. þm. þekkir þarna einhverja sameiginlega sögulega þætti. Bæði vegna hv. þm. og okkar hinna þá hefði verið skemmtilegra ef betur hefði legið á henni og hún hefði látið slíka gamansemi eftir sér. Ég hefði haft gaman af því.

Frændur okkar Færeyingar eru að berjast fyrir sjálfstæði. Meiri hluti færeysku þjóðarinnar hefur samþykkt það í kosningum, gegnum stuðning við flokka sem hafa það á dagskrá sinni að Færeyingar gerist sjálfstæð þjóð. Það hafa þeir ekki gert til þess að einangra sig, það held ég sé ekki meining nokkurs manns í Færeyjum. Það er heldur ekki skoðun mín sem hef stutt þá mjög í þessari viðleitni að þeir eigi að gera það. Nei, það hafa þeir til þess að geta sjálfstætt gætt hagsmuna sinna á eigin forsendum. Og það er það sem þetta snýst um.

Alþjóðasamstarf er í aðalatriðum af tvennum toga. Annars vegar er samstarf fullvalda ríkja í heims- eða svæðisstofnunum þar sem um tiltölulega lítið eða ekkert framsal fullveldisréttar til stofnana eða yfirþjóðlegs valds er að ræða. Af þessum toga er samstarfið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Evrópuráðinu og í Norðurlandaráði, sem er kannski skýrasta dæmið. Hið ágæta samstarf Norðurlandanna byggir í engu á yfirþjóðlegu valdi. Það er ekki til staðar í því samstarfi. Hins vegar sjáum við þróun af því tagi sem er í gangi í Evrópusambandsríkjunum eða á Evrópusambandssvæðinu, þar sem menn eru hraðbyri að þróa málin í átt til sambandsríkis. Að sjálfsögðu hverfur þá sjálfstæði og fullveldi þeirra ríkja sem þar eru aðilar þar inn í.

Ég held að það mundi ekki þykja nein ótíðindi og í sjálfu sér ekki valda neinum áhyggjum í nágrannalöndunum þó Alþingi Íslendinga afgreiddi tillögu af þessu tagi sem væri undirstrikun á því að við ætluðum að halda sjálfstæði okkar, en rækta góð samskipti við umheiminn.