Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:15:31 (282)

2000-10-10 15:15:31# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þessi tillaga er um sjálfstæði Íslands. Þessi tillaga er flutt af hópi þingmanna sem eru þeirrar skoðunar að við eigum áfram að byggja á sjálfstæði íslensku þjóðarinnar sem grundvelli okkar þjóðskipulags og samskipta okkar út á við við aðrar þjóðir. Og samlíkingin við Færeyinga er ósköp einföld og skýr. Þeir eru að leita eftir sama fyrirkomulagi fyrir sig, einmitt núna þessa mánuðina og gengur illa að vísu, því miður, vegna ótrúlegrar stífni og þvermóðsku danskra krata fyrst og fremst, flokkssystkina hv. þm. Ég tel hins vegar og gef mér að í því felist ekki af hálfu Færeyinga þó að þeir telji, þessi meiri hluti færeysku þjóðarinnar sem þar er á bak við, að heppilegra sé fyrir þá að gæta sinna hagsmuna og lifa í heiminum sem sjálfstæð þjóð, að það sé vegna þess að þeir vilji einangra sig. Ég er alveg sannfærður um að svo er ekki og veit reyndar vel að svo er ekki því að ég þekki ágætlega þeirra helstu forystumenn í þessu máli og það sama gildir um okkur. Við erum ekki að leggja það til. Það er útúrsnúningur, viljandi að því er virðist, hjá hverjum talsmanni Samfylkingarinnar á fætur öðrum og hæstv. utanrrh. sem ég held að eigi að fara að sækja um aukaaðild að heimssambandi krata því að oft og tíðum birtist hæstv. ráðherra eins og liðsmaður í þeirri sveit, að lesa út úr þessari tillögu einhverja einangrunarhyggju. Það er bara alls ekki það sem hún er um og það kemur skýrt fram í textanum. Tillagan gefur sér hins vegar ákveðnar forsendur fyrir því á hvaða grunni samskipta Íslands verði gætt. Það er alveg hárrétt. Hvers vegna, herra forseti, þyrfti að breyta stjórnarskrá íslenska lýðveldisins ef við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu? Hvers vegna reiknuðu Norðmenn með því og hefðu orðið að breyta sinni stjórnarskrá ef þeir hefðu gerst aðilar að Evrópusambandinu? Vegna þess að í gegnum aðildina fer fram verulegt framsal á fullveldisrétti ríkja til stofnana Evrópusambandsins. Við mælum ekki með slíkum hlutum og teljum þar allt of langt gengið og um það er þessi tillaga.