Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:18:44 (284)

2000-10-10 15:18:44# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir klifar á því að stórhættulegt sé að framkalla einangrunarstefnu. En staðreyndin er sú að þessi till. til þál. frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er einmitt tillaga um tilhögun á samstarfi Íslands við aðrar þjóðir og það er meira en mörg önnur stjórnmálaöfl á hinu háa Alþingi hafa treyst sér til að gera. Þess vegna er það tilefni fyrir mig til þess að spyrja hv. þm.: Er bara samstaða um það hjá Samfylkingunni, eins og fram hefur komið hér í umræðunum, að ræða málin og skoða málin? Er samstaða um að leggja fram tillögu sem skýrir klárlega stefnu Samfylkingarinnar í samskiptum okkar og þá sérstaklega við Evrópusambandið? Hvers vegna er þá ekki fyrir löngu komin fram tillaga um að ganga til verka á svipuðum nótum varðandi samstarf við aðrar þjóðir eins og við höfum klárlega lagt fram?

Þjóðin á heimtingu á því að menn leggi fram skýra og klára stefnu, skýrar og klárar leiðir sem viðkomandi stjórnmálaöfl vilja fara. Allir geta sagt, bæði framsóknarmenn og samfylkingarmenn, að það eigi að skoða hlutina. En undirliggjandi áhugi er --- það veit öll þjóðin --- allt annar. Undirliggjandi áhugi þeirra sem tala á þann hátt hnígur að því að ganga í Evrópusambandið. Spurningin er því þessi: Er samstaða um það hjá Samfylkingunni að skoða það að leggja fram tillögu á allra næstu dögum eða vikum um að ganga í ESB?