Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:20:36 (285)

2000-10-10 15:20:36# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi svokallaði undirliggjandi áhugi innan Samfylkingarinnar á nánara samstarfi við Evrópu angrar vinstri græna greinilega. En ég get upplýst hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson um það að á stofnfundi Samfylkingarinnar í maí sl. var eftirfarandi samþykkt og ég les beint nú upp úr stofnsamþykktinni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Næsta skref í þessum málum er að hefja skipulega vinnu við að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Um þau markmið þarf að ríkja meirihlutasamstaða meðal þjóðarinnar. Það er ekki ráðlegt að sækja um aðild nema slík samstaða sé fyrir hendi og nægir þar að minna á dæmi Norðmanna.``

Það gleður mig að geta upplýst hv. þm. um þetta. Þessi vinna er farin af stað innan Samfylkingarinnar og ég er hrædd um að hv. þm. verði bara að bíða þangað til hún er tilbúin.