Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:31:55 (289)

2000-10-10 15:31:55# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þó að hv. þm. teldi sig ekki geta tekið að öllu leyti undir tillöguna óbreytta eins og hún er fram sett þá var ólíku saman að jafna málflutningi hans og þeim sem við heyrðum áðan í ræðum hv. þingmanna Samfylkingarinnar og Framsfl. Hér voru færðar fram mjög málefnalegar athugasemdir og málefnaleg umfjöllun um það sem þetta einmitt snýst um. Og það er alveg hárrétt að út frá orðalagi þessarar tillögu er að sjálfsögðu þróun Evrópusambandsins sérstaklega höfð í huga og orðalag valið m.a. með hliðsjón af því sem þar fer fram og þeirri umræðu sem þar er um hvers eðlis í raun og veru fyrirbærið sé og hvert það sé að stefna. Enda þarf ekki mikið hugmyndaflug í sjálfu sér til að komast að þeirri niðurstöðu þegar grg. tillögunnar er skoðuð, þar eru einar fjórar, sex blaðsíður af tíu fyrst og fremst um þessi samskipti okkar við Evrópusambandið.

Það er út af fyrir sig þannig að menn greinir á um hvert þetta er að þróast og jafnvel að einhverju leyti um það hvað Evrópusambandið sé í dag og hversu sjálfstæð ríkin séu í raun og veru sem í sambandinu eru. Og síðan koma hugmyndir manna um að gera þetta að formlegu ríkjasambandi eða ,,federation`` og hafa þar ýmsir lagt til hlutanna á síðustu mánuðum og má þar nefna utanrríkisráðherra Þýskalands og fleiri hugsuði sem hafa verið að teikna upp þetta mögulega framtíðarríki meginlands Evrópu.

En þó við horfum ekki til annarra hluta en þeirra sem eru staðreyndir líðandi stundar, að þarna eru ríkin velflest búin að koma sér upp sameiginlegri mynt, sameiginlegum seðlabanka, eru að undirbúa sameiginlega varnarstefnu og akkúrat þessa mánuðina er unnið að sameiginlegri stjórnarskrá eða ,,charter``, þá teiknar það allt saman til sambandsríkis eða ríkjasambands og tillagan tekur algjörlega af skarið hvað það varðar að við sjáum það ekki sem hagstæðan kost fyrir okkur að gerast aðilar að því sambandi.