Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:38:13 (292)

2000-10-10 15:38:13# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti fallist á þá skoðun hv. síðasta ræðumanns að ástæður landa í Evrópu til þess að ganga í Evrópusambandið geta verið mjög mismunandi. Það fer t.d. ekki á milli mála að Finnar gengu í Evrópusambandið ekki einungis af efnahagslegum ástæðum heldur kannski fyrst og fremst af öryggisástæðum. Og ástæðan fyrir því að baltnesku löndin hafa áhuga á inngöngu í Evrópusambandið er fyrst og fremst öryggismál vegna sárrar reynslu af nábýli við Rússa. Það er einnig ljóst að Rússar hafa sem slíkir ekki amast við aðild að Evrópusambandinu þó að í slíkri aðild felist vissulega ákveðinn öryggisgrunnur.

Á sama hátt hljótum við að geta litið til Íslands og áttað okkur á því hvað það er sem veldur því að við erum ekki eins bundnir af þessum öryggishugsunarhætti eins og Eistland, baltnesku löndin og Finnland en það er einmitt það að við höfum tryggt öryggismál okkar með alveg sérstökum og mjög tryggum hætti og það hefur verið liður í utanríkisstefnu okkar mjög lengi. Það má kannski segja sem svo að samningur okkar við Bandaríkjamenn um öryggismál og vera okkar í NATO skapi okkur visst svigrúm í sambandi við utanríkismál og ekki þá síst gagnvart Evrópusambandinu.