Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:52:12 (296)

2000-10-10 15:52:12# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er, að það getur vafist fyrir okkur að skilja efni tillögunnar þegar hv. flm. skilja hana ekki einu sinni sjálfir. Þeir hafa orðið tvísaga um hvað þeir eigi við með þessari tillögu í framsöguræðum sínum hér þegar þeir hafa mælt fyrir henni.

Ég leyfði mér að benda hv. þm. á að mjög margir verkalýðsforingjar sem voru honum sammála á sínum tíma í andstöðu við EES-samninginn hafa gjörsamlega breytt um skoðun. Ég held að það hljóti að teljast merkilegt þegar fjölmenn verkalýðsfélög gefa út sérstaka bæklinga um þann ávinning sem félagsmenn hafi haft af þessum samningi. Ég held að ef hann ræddi við kollega sína hjá Alþýðusambandinu þá sé talsvert annar tónn í þeim núna en var. Ég held að svo hljóti að vera um marga félagsmenn hans því að þeir eru nú þegar aðilar að samstarfi stéttarfélaga á grunni Evrópusambandsins. Þeir hafa með þeim hætti komið bakdyramegin inn í bein afskipti af málefnum á vegum Evrópusambandsins sem varða launafólk. Þeir eru þar með orðnir þátttakendur í því samstarfi sem á sér stað á vettvangi Evrópusambandsins.

En ég ítreka óskir mínar til hv. þm. um að flm. breyti orðalagi tillögu sinnar í þá veru sem hann túlkar hana, þ.e. að tillagan snúist um að Alþingi segi nei við ESB-aðild en skipi eigi að síður nefnd til að skoða málið, þ.e. skjóti fyrst og spyrji svo.

Ég skal lýsa því yfir að persónulega er ég mjög fylgjandi því að Alþingi skipi nefnd eins og gert var á sínum tíma til að skoða þróun Evrópumála og hvað muni henta okkur Íslendingum best í því efni. Það er í fullu samræmi við stefnu Samfylkingarinnar sem vill að þessi mál séu rædd og skoðuð þannig að menn geti tekið vitræna afstöðu til þess. En það er ekki vitræn afstaða að segja fyrst nei og kjósa síðan nefnd til að skoða málið. Ef hv. þm. breytir efni tillögu sinnar eins og hann lýsir henni þá er ég tilbúinn til að styðja a.m.k. þennan þátt hennar.