Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:54:35 (297)

2000-10-10 15:54:35# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil upplýsa hv. þm. Sighvat Björgvinsson um að innan allra verkalýðsfélaga og sambanda eru skiptar skoðanir um Evrópusambandið. Það á án efa við um ASÍ, það á við um BSRB, það á við um BHM, það á við um önnur samtök. Þar er að finna ýmsa sem eflaust vilja að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu og telja að okkar hagsmunum sé best borgið með þeim hætti. Aðrir eru því andvígir.

Verkalýðshreyfingin hefur aðeins tekið formlega afstöðu til eins í þessu efni og það var til þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson stóð að að meina íslensku þjóðinni um.

Varðandi alþjóðlegt samstarf verkalýðshreyfingarinnar þá get ég einnig upplýst hv. þm. um að það starf er ekki einskorðað við Evrópu. Það fer fram á Norðurlandavettvangi, Evrópuvettvangi og í heiminum öllum. Reyndar er það kannski merkilegast sem er að koma fram núna, að mínum dómi, þ.e. hve fjármagnið er orðið fjölþjóðlegt og engan veginn einskorðað við Evrópu þegar litið er t.d. til einkavæðingarinnar og á hvern hátt fjölþjóðarisarnir eru farnir að teygja arma sína um heim allan. Þess vegna eru það sterk viðhorf innan hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar að við eigum að forðast einangrunarhyggju. Við eigum að forðast það að skoða hlutina þröngt, hvort sem er á vettvangi þjóðríkisins eða ríkjasambanda eins og Evrópusambandsins. Við eigum að hugsa vítt, við eigum að hugsa og horfa til heimsins alls.