Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:14:47 (301)

2000-10-10 16:14:47# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég ekki meina að stefna Samfylkingarinnar í þessum málum sé eitthvað óskýr. Ég held ég hafi dregið hér upp að þetta er miklu flóknara mál en svo að hægt sé að svara því með já eða nei. Það er heldur ekki skynsamlegt að beita þeirri aðferð. Við höfum lagt upp með það ferli innan okkar flokks til að fá vitræna niðurstöðu í málinu. Menn hafa misjafnar skoðanir og ég held að sú aðferðafræði sé miklu affarasælli en að stilla þessu upp að allt liggi á borðinu og menn geti tekið strax afstöðu.

[16:15]

Varðandi spurningu hv. þm. hvort það sé mótsögn í því sem er að gerast innan Evrópusambandins á sviði efnahagsmála og síðan á sviði stjórnmála þá sé ég það ekki vera. Ég held einmitt að efnahagsstefna Evrópusambandsins, samræming á mörgum þáttum, hafi reynst Evrópusambandinu mjög vel. Þetta er ein stærsta viðskiptablokk í heiminum ásamt öðrum og ég held að þróunin í Evrópu hafi einmitt sýnt að það fyrirkomulag sé gott sem verið er að byggja upp og við erum aðilar að því að með EES-samningnum höfum við lögleitt alla viðskiptalöggjöf okkar sem hefur reynst okkur mjög farsæl. Og ég vil benda á að miðstýringin í Evrópu er kannski ekkert svo voðalega mikil. Það er oft talað um báknið í Brussel. En ef við yfirfærum alla starfsmenn í Brussel hjá Evrópusambandinu yfir á íslenskar aðstæður þá væri þetta stofnun upp á 15 manns. Þetta er nú ekki meira þannig að oft er nú gert meira úr þessu en efni standa til.

Ég held að samræming í efnahagsmálum sé af hinu góða og hafi leyst úr læðingi samkeppni og möguleika ekki hvað síst fyrir þjóðirnar sem eru nýlega orðnar frjálsar í Austur-Evrópu og sækja um aðild. Ég vil líka benda að Evrópusambandið er alltaf að auka lýðræðið innan sinna vébanda og ein viðamesta umræðan sem þar fer fram er um þjóðþingin, Evrópuþingið og hvernig tryggðir eru hagsmunir, sérstaklega smærri ríkja. Þetta er mjög athyglisverð þróun innan Evrópusambandsins þó að ég sé ekkert að segja að það henti íslenskum aðstæðum. Til þess er umræðan ekki kannski komin enn þá nógu langt. En þessar þjóðir eru sammála um að þetta sé vettvangurinn sem þær vilja starfa innan, líka á grundvelli lýðræðislegra fyrirkomulags.