Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:17:07 (302)

2000-10-10 16:17:07# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það eru nú mjög skiptar skoðanir innan þjóðfélaganna hvert beri að halda. Við vitum fullvel hvaða álitamálum við stöndum frammi fyrir gagnvart Evrópusambandinu og hugsanlegri aðild að því. Stjórnmálaflokkum ber að taka afstöðu og móta skýra stefnu og koma heiðarlega fram með þá stefnu. Það höfum við gert. Við höfum lagt þá stefnu á borðið. Það vita allir hver þessi álitamál eru.

Varðandi hina heildstæðu stefnu sem verið er að móta á vettvangi Evrópusambandsins þá verður þar allt bundið fast. Sett verður þak á heildarskuldastöðuna, á vextina og á verðbólguna verða sett bönd. Það verður ein breyta eftir, þ.e. atvinnustigið. Fátækari ríkjum sem kæmu til með að vilja taka lán t.d. til þess að ráða bót á atvinnuvandanum eða tímabundnum vanda yrði refsað af hinum miðstýrða evrópska seðlabanka með peningarefsingu. Telur þingmaðurinn virkilega þetta til þess fallið að stuðla að friði og draga úr spennu?

Nei, þvert á móti. Ég er ekkert að finna þessa röksemd upp hjá sjálfum mér. Þetta er umræða sem fram fer um Evrópu alla og er þess valdandi núna að ýmsir eru farnir að hafa áhyggjur af því að Evrópusamrunastefnan eins og hún hefur verið rekin muni ekki á endanum ganga upp. Menn hafa áhyggjur af þessu. En hv. þm. Ágúst Einarsson hefur ekki minnstu áhyggjur af þessu ef marka má orð hans.