Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:19:00 (303)

2000-10-10 16:19:00# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef engar áhyggjur af þróuninni innan Evrópusambandsins eða þróuninni í Evrópu vegna þess að hún er að gerast eftir vilja þjóðanna sjálfra, meirihlutavilja þjóðanna. Auðvitað eru skiptar skoðanir hjá þessum þjóðum alveg eins og hjá okkur. En það hefur alls staðar verið borið upp í þjóðaratkvæðagreiðslu ef menn ætla að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Styrk efnahagsstjórn og góð hagstjórn eins og rekin er innan Evrópusambandsins, hvort sem það er af seðlabanka Evrópusambandsins eða öðrum, er alltaf til hins góða og bætir lífskjör.

Mér finnst koma fram í máli hv. þm. og í þáltill. afskaplega ósveigjanleg afstaða, fjandsamleg afstaða gagnvart grönnum okkar í Evrópu og því skipulagsformi sem þeir hafa fundið sér. Það er einungis einn stjórnmálamaður á Íslandi sem ég finn samsvörun við í þessum málflutningi og það er hæstv. forsrh. Það er eini maðurinn, herra forseti, sem ég hef fundið að talar á sömu nótum og hv. þm. og sá þingflokkur sem hefur lagt fram þessa tillögu.

Tillagan er skýr og þess vegna fagna ég henni. En að mínu mati er hér ekki komin stefna til farsældar fyrir Íslendinga. Hverjir eru vinir þessa málflutnings? Ég held að það sé alveg ljóst ef maður skoðar ummæli hæstv. forsrh. hin síðustu missiri.