Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:36:23 (305)

2000-10-10 16:36:23# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að útskýra þessi stóru orð. Þetta eru stór orð og ég tel að þau séu röng.

Ef það er að grafa undan samskiptum okkar við Evrópu að lýsa staðreyndum máls eins og ég hef verið að gera og jafnframt að sækja á um bót í þeim efnum eins og utanríkisþjónustan og sendiráðið í Brussel er að gera hvern einasta dag, ef það er að grafa undan samningum, þá skil ég bara ekki íslensku. (Gripið fram í: Þú verður að tala ensku.) Ég hugsa að ég skilji hana nú ekki betur þó ég sé kannski ekki nægilega góður íslenskumaður.

Eiga menn ekki að lýsa ástandi eins og það er? Er með því verið að grafa undan framtíðinni? Ég tel að þetta sé algjör firra. Halda menn að Evrópusambandið og aðilar þar viti ekki nokkurn veginn hvernig þetta er? Heldur hv. þm. að utanrrh. Íslands þurfi að lýsa því fyrir Evrópusambandinu? Heldur hv. þm. að utanrrh. Íslands þurfi að útskýra það fyrir öðrum aðildarríkjum EFTA svo dæmi séu tekin?

Það vill svo til að önnur aðildarríki EFTA hafa nákvæmlega sama mat á þessari stöðu og sá sem hér stendur. Það veit ég af samræðum við þá. Er ekki best að ræða þessa hluti eins og þeir eru en ekki eins og við vildum hafa þá? Eða er hv. þm. að halda því fram að við eigum bara að ræða þá eins og við vildum hafa þá en gleyma því hvernig þeir eru? Ætli geti ekki verið að það sé besta leiðin til þess að tryggja betur stöðu Íslands að tala um þessa hluti eins og þeir eru? Það er að minnsa kosti mitt mat.