Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:41:20 (307)

2000-10-10 16:41:20# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það vera frumskyldu mína að segja frá því hvernig við upplifðum rekstur þessa samnings frá degi til dags. Ég tel að mér sé það skylt gagnvart íslensku þjóðinni. Þar að auki er það alveg ljóst að þau vandamál sem er við að stríða og við munum eiga við að stríða á næstu árum, og ég trúi að það verði í meira mæli, eru ekki eingöngu vandamál okkar. Þau eru jafnframt vandamál Evrópusambandsins. Við erum með samning við Evrópusambandið sem er EES-samningurinn og Evrópusambandið hefur ákveðnar skyldur gagnvart okkur og öðrum þjóðum ef skilyrði breytast.

Það er t.d. alveg ljóst að ef Norðmenn ganga í Evrópusambandið en ekki Íslendingar þá verður mikil breyting á þeim stofnunum sem við erum að reka. Evrópusambandið kynni þá að bjóða okkur Íslendingum upp á það, eins og að hefur verið látið liggja, að í stað þess að við værum að reka sjálfstæða eftirlitsstofnun þá gæti framkvæmdastjórnin tekið það að sér, við skulum taka það sem dæmi. Evrópusambandið kynni líka að bjóða upp á það að í stað þess að EFTA-dómstóllinn starfaði áfram þá kynnu þeir að geta boðið upp á það að Evrópudómstóllinn tæki við okkar málum. Er það fullnægjandi? Nei. Það er ekki fullnægjandi. Það samrýmist ekki okkar hagsmunum.

Til þess að leiða þetta allt saman fram verða menn að tala um þessa hluti eins og þeir eru en ekki eins og við vildum hafa þá. Það þjónar okkar framtíðarhagsmunum að tala um þetta þannig en ekki eins og við vildum hafa þetta. Ég mótmæli því harðlega hér úr þessum stól, ræðustól á Alþingi, að ég hafi á nokkurn hátt grafið undan þessum samskiptum. Ég get fært rök fyrir því að mér og mínu ráðuneyti hafi á ýmsan hátt tekist að styrkja þessi samskipti. Og ég bið hv. þm. að nefna eitt einasta dæmi þar sem við höfum með framgöngu okkar veikt stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu.