Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:45:51 (309)

2000-10-10 16:45:51# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Umræðurnar eru löngu hættar að snúast um þáltill. eins og hún er flutt. Þær snúast nú um miklu þrengra og afmarkaðra efni, sem sé um ESB og hugsanlega aðild Íslands að ESB. Hví í ósköpunum fluttu þá vinstri grænir mál sitt um það en ekki um eitthvað allt annað og víðtækara?

Eftir því sem mér skilst þá er stefna vinstri grænna þessi: Við viljum opnar og frjálsar umræður um Evrópumálin en útiloka fyrir fram að sú umræða geti leitt til að Ísland gerist aðili að ESB.

Við í Samfylkingunni erum þeim sammála um opnar umræður um Evrópumálin vegna þess að við teljum þær tímabærar. Við erum þeirrar skoðunar að þjóðin eigi að taka afstöðu og þjóðin geri það ekki nema með upplýsti umræðu. En við viljum ekki útiloka fyrir fram að sú niðurstaða geti leitt til aðildar Íslands að Evrópusambandinu þyki það skynsamlegt.

En ég spyr hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Hvers vegna vill hann útiloka það fyrir fram að Ísland gerist aðili að ESB ef það verður niðurstaða þjóðarinnar að lokinni skynsamlegri umræðu? Af hverju flytur hann hér tillögu um að fyrir fram verði mörkuð sú afstaða að hvað svo sem kynni að gerast í þeim umræðum sem hann vill að fari fram þá sé búið að loka þeim dyrum sem gætu leitt til aðildar Íslands að ESB?