Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:47:42 (310)

2000-10-10 16:47:42# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að þessi tillaga snýst eðli málsins samkvæmt að verulegu leyti um fyrirkomulag eða tilhögum samskipta okkar við Evrópusambandið. Af sjálfu leiðir. Þau samskipti eru hins vegar hluti af hinu alþjóðlega samhengi og þess vegna er tillagan sett fram eins og raun ber vitni. Hún villir hins vegar ekki á sér heimildir. Í grg. tillögunnar er rökstuðningur sem tengist samskiptum við Evrópusambandið uppistaðan, eða frá miðri bls. 2 og aftur á miðja bls. 9 í 10 blaðsíðna þskj. Þannig þarf ekki sérstaklega frjótt hugmyndaflug til að sjá að auðvitað eru samskiptin við Evrópusambandið mjög veigamikill þáttur þess sem við köllum þarna alþjóðasamskipti, en að sjálfsögðu í samhengi við stærra mál.

Ég held, herra forseti, að það hafi kristallast ákaflega vel í þessari umræðu, og að því leyti hefur hún verið þörf, að í grófum dráttum er uppi tvenns konar ástand í umræðum um þessi mál á Íslandi í dag. Annars vegar eru flokkar sem hafa stefnu og skoðun á því hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki og hins vegar flokkar sem hafa það ekki.

Samfylkingin á greinilega í mjög miklum vanda, ósköp einfaldlega vegna þess að hana vantar stefnu í þessu afdrifaríka máli. Hún getur ekki gengið frá því í sínum röðum hvort hún mæli við núverandi aðstæður með aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Þar skilur á milli. Við höfum mótaða stefnu í því máli, alveg skýra, og göngum út frá henni. Ég held við þurfum í sjálfu sér ekkert að flækja málin, það liggur algjörlega fyrir og hefur kristallast í þessari umræðu, að þessi er vandi Samfylkingarinnar í hnotskurn og við getum alveg eins haft samúð með þeim sem þannig er ástatt um.