Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:53:34 (313)

2000-10-10 16:53:34# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að mótmæla þeim fullyrðingum hv. þm. að afstaða okkar þingmanna í Samfylkingunni sé skoðanaleysi og við séum raunverulega að segja fólki að það verði að bíða þangað til umræðu sé lokið innan okkar flokks. Þetta er ekki rétt. Við höfum kosið að beita þeirri aðferð að fara yfir samningsmarkmiðin út frá breyttum aðstæðum í Evrópu. Ég gerði það að umtalsefni áðan. Upp er komin önnur staða í Evrópu hin síðari ár en var þegar Evrópuumræðan hófst fyrir nokkrum áratugum síðan. Við erum ekki skoðanalaus í þessu en viljum hins vegar gjarnan, því þetta er mikilvægt mál, reyna að fá samstöðu með fólki um þetta.

Þegar Jacques Delore opnaði fyrir nánari samskipti milli EFTA og Evrópusambandsins sem endaði með EES-samningnum, fóru öll EFTA-ríkin í viðræður nema við og Norðmenn felldu reyndar samninginn eins og við þekkjum. Þá voru aðrar forsendur og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, þegar við förum í stefnubreytingu gagnvart Evrópusambandinu, að sú umræða verði opin í öllum stjórnmálaflokkum. Við myndum okkur ekki afstöðuna fyrir fram og reynum að hafa sem allra mesta samstöðu um hana.

Við þekkjum hatrammar deilur í tengslum við utanríkismál síðustu áratugi og þeim deilum mun haldið áfram vegna þess að það verður alltaf minni hluti og meiri hluti í þessum efnum. En ég held að aðferðafræðin sem við leggjum upp með hér sé farsæl. Þetta tekur einhver missiri.

Það sem mér finnst hins vegar vera athyglisverðast í þessari umræðu --- hin pólitíska niðurstaða --- er hve mikill samhljómur er milli vinstri grænna og formanns Sjálfstfl. í þessu utanríkismáli sem hér hefur verið rætt hvað mest um, þ.e. afstaðan gagnvart Evrópusambandinu. Það finnst mér vera, herra forseti, hin pólitíska niðurstaða í þessari umræðu, það er sá samhljómur sem hér kemur fram.