Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:02:12 (317)

2000-10-10 17:02:12# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu.

Hv. þm. segir að menn þurfi að vera búnir að ganga úr skugga um það áður en þeir leggja fram einhverja tillögu að sú leið sem lögð er fram sé fær. Gott og vel. Þá hef ég spurningu fyrir hann sem ég verð að leggja fram með þessum hætti því ég átti ekki kost á því að fá meiri tíma til andsvara.

Í tillögunni leggur hann til að í staðinn fyrir það efnahagssamstarf sem við höfum átt og byggist á ríkjasamstarfi og bandalögum eins og EFTA og EES verði tekin upp það sem hann kallar tvíhliða lausn, þ.e. tvíhliða samningar milli viðkomandi aðildarríkja. Og nú spyr ég hv. þm.:

Hefur hann kannað það eða hefur hann skoðun á því hversu auðvelt það sé að fá EFTA-ríkin og Evrópusambandsríkin og þau ríki sem EFTA hefur gert viðskiptasamninga við fyrir hönd aðildarríkjanna, nú síðast Kanada, til þess að hverfa frá þeim niðurstöðum og afgreiða í staðinn í gegnum jafnmörg þjóðþing, sennilega langt á þriðja tug þjóðþinga, tvíhliða samninga við Ísland um viðskipti og samstarf í mennta- og menningarmálum? Hefur hv. þm. einhverja skoðun á því hvort líklegt sé að sú lausn nái fram að ganga? Eða hefur hann einhverja skoðun á því hversu langan tíma það muni taka að ganga úr skugga um það hvort slík lausn sé fáanleg? Hann getur t.d. stuðst við reynslu Svisslendinga af því hvað það tók þá langan tíma að ná tvíhliða samningi við Evrópusambandið sem er miklu verri en sá samningur sem EFTA-ríkin gerðu. Hann er miklu verri, miklu takmarkaðri ef maður skoðar hagsmuni Svisslendinga og miklu víðtækari ef menn skoða yfirráðahagsmuni ESB. Eða hefur hv. þm. kannski sömu lausn á þessu máli og sá maður sem eitt sinn var formaður í stjórnmálaflokki hans og situr ekki lengur á þingi? Hann lagði þessa sömu lausn til með stuðningi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar EES-samningurinn var til meðferðar. Þá lagði sá formaður fram fyrir okkur þingmenn tillögur sínar um það hvernig tvíhliða samningurinn við ESB-ríkin skyldi hljóða, þannig að hann var með það alveg á tæru hvernig þeir ættu að vera. En það var bara eitt sem vantaði á það allt saman og það var hann hafði ekkert sýnt væntanlegum viðsemjendum okkar svo mikið sem eina setningu í þessum samningum. Hann hafði bara gert þá við eldhúsborðið heima hjá sér og gefið sér að það yrði harla lítið mál að fá öll ESB-ríkin til þess að afgreiða samninginn sem hann hefði búið til á kokkhúsborðinu heima hjá sér í gegnum þjóðþing þessara landa. Er þetta hinn vandaði undirbúningur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og flokkssystkini hans hafa haft á þessum málatilbúnaði sínum, þ.e. sú athugun sem fram hefur farið á því og það mat sem fram hefur farið á því að taka upp tvíhliða samninga við þessi ríki langt á þriðja tug sem við höfum gert samninga við í gegnum fjölþjóðlegt samstarf á vegum EFTA og ESB og EES? Það verður þá ekki lítið að gera fyrir hæstv. utanrrh. og allt íslenska utanrrn. ef það þarf að fara þá leiðina. Þá er ég hræddur um að ekki dugi það starfslið sem þar er fyrir hendi og jafnvel þó það yrði tvöfaldað eða þrefaldað.

Hv. þm. Ágúst Einarsson sagði áðan að menn séu að feta nýja leið í Samfylkingunni. Það er rétt. Við viljum skilgreina samningsmarkmiðið. Við viljum að íslenska þjóðin geri upp við sig hverju hún vilji ná fram í samningum við Evrópusambandið og þegar það er búið þá hefjist alvörusamningaviðræður. Við viljum ekki fara í viðræður bara upp á plat. Við viljum ekki fara í viðræður bara til að sjá. Við viljum að íslenska þjóðin geri fyrst upp við sig hvað það er sem hún vill fá fram áður en samningaviðræður hefjast og að samningaviðræður hefjist ekki fyrr en íslenska þjóðin er búin að gera þetta upp við sig. En ekki einu sinni það eru vinstri grænir reiðubúnir að hlusta á. Þeir vilja fyrirframafstöðu um að þessi leið sé lokuð hvað svo sem líður vilja þjóðarinnar, hvað svo sem líður afstöðu hagsmunasamtaka þar á meðal aðila eins og verkalýðshreyfingarinnar og hvað svo sem líður skynsemi þeirra manna sem um eiga að fjalla. Þeir vilja gæta þess vel og vandlega að þessari hurð sé lokað og henni aflæst áður en lengra er haldið. Með öðrum orðum treysta þeir því ekki að skynsamleg umræða kunni að geta leitt til þessarar niðurstöðu og þá niðurstöðu vilja þeir ekki fá undir neinum kringumstæðum. Þeir vilja ganga út frá því áður en t.d. sú vinna hefst að móta samningsmarkmið Íslendinga að þessari leið sé lokað. Þó að þjóðin vildi þá má hún ekki fá að ganga þessa götu. Það er forræðishyggja. Það er ekki afstaða heldur er það forræðishyggja og það er einangrunarstefna.

En ég ítreka spurningu mína, virðulegi forseti, til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar: Hvaða könnun hefur hann gert á því hvort líklegt sé að við getum fengið afgreidda á þjóðþingum u.þ.b., já, langt á þriðja tug ríkja sambærilega samninga í tvíhliða samskiptum og við höfum nú við ríkin innan ESB og eins og við höfum nú við þau ríki sem EFTA hefur gert samninga um fyrir okkar hönd um samskipti og viðskipti milli EFTA-ríkjanna og þeirra? Og hvaða líkur telur hann á því að á þriðja tug þjóðþinga séu reiðubúin að afgreiða slíka samninga við okkur Íslendinga? Það er hreinn barnaskapur að halda slíku fram, barnaskapur sem lýsti sér í því þegar formaður í þeim flokki sem hann tilheyrði þá lagði fram á Íslandi uppkast að tvíhliða samningi við öll ESB-ríkin sem hann hafði skrifað við eldhúsborðið heima hjá sér og lagði fram fyrir þjóðina sem valkost en ekki nokkur annar maður hafði séð nema e.t.v. félagar hans í þingflokknum sem hann þá sat í og ég efast meira að segja um að þeir hafi fengið að breyta svo miklu sem stafkrók í þeim uppköstum.