Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:15:52 (321)

2000-10-10 17:15:52# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ef ég ætti að gefa hv. þm. einkunn fyrir málflutning hans hér þá mundi ég biðjast undan því því ég treysti mér ekki til þess að gerast prófdómari í sambandi við einkunnagjöf fyrir þingflokk sem flytur tillögu um eitt en mælir fyrir henni um allt annað. Ég treysti mér því ekki til að gefa einkunn fyrir slíkar tilraunir.

Hins vegar verð ég að segja það eins og er að nú hætti ég algjörlega að skilja vegna þess að hv. þm. virðist gera ráð fyrir því að núverandi samningar milli EFTA og ESB verði framlengdir með tvíhliða samningum milli Íslands og viðkomandi aðildarríkja. Og þá skil ég hann nú ekki lengur vegna þess að samningur EFTA og ESB um EES-svæðið gerir að sjálfsögðu ráð fyrir miklu meiri samskiptum heldur en eingöngu á sviði viðskiptamála. Og ég spyr: Gengur þá hv. þm. út frá því að við gerum t.d. tvíhliða samning við Spán um að tilteknir þættir í lagasetningu sem settir yrðu á spænska þinginu öðluðust lagaígildi á Íslandi, þ.e. ætlar hann að framlengja EES-samninginn í því formi sem hann er núna við aðildarríki Evrópusambandsins í framtíðinni eða er maðurinn að tala um að efna til nýrra samninga á tvíhliða grundvelli eingöngu um viðskiptasamstarf? Þá er auðvitað ljóst að þær viðræður takast alveg frá grunni, upp á nýtt, og þyrftu margra ára aðlögun. Ég skil því ekki nákvæmlega hvað fyrir hv. þm. vakir því ég trúi því varla að hann sé að segja okkur að hann geri ráð fyrir því að EES-samningurinn verði framlengdur óbreyttur í tvíhliða samningum Íslands við önnur ríki, (Forseti hringir.) með öðrum orðum að við yfirtökum lagasetningar einstakra ríkja í okkar löggjöf.