Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:33:57 (326)

2000-10-10 17:33:57# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki spurningin um einhverja nauðhyggju. Þetta er spurningin um það að meta okkar stöðu rétt og fara í hlutina samkvæmt því. Það er það sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vil minna hv. þm. á það að við erum hluti af innri markaði Evrópusambandsins, við höfum yfirtekið allt það regluverk sem þar er og höfum skyldur til þess að taka yfir hluta af því og það regluverk í framtíðinni. Hvernig er hægt að reka það áfram með tvíhliða hætti? Það er einfaldlega ekki hægt nema við viljum alveg afsala okkur þar áhrifum og afsala okkur hlutum til yfirþjóðlegs valds.

Telur hv. þm. það raunhæfan kost að við segjum okkur frá þessum innra markaði? Telur hann að íslenskur sjávarútvegur þoli það? Telur hann að íslenskt atvinnulíf þoli það? Telur hann t.d. að verkalýðshreyfingin, sem hefur talið að það hafi verið til bóta að vera hluti af þessum innra markaði, vilji það?

Ég tel það vera algjörlega óraunhæfan kost og ég er einfaldlega að segja: Í guðanna bænum, málið er alveg nógu flókið og nógu erfitt þó við séum ekki að gæla við svona hugmyndir sem að mínu mati standast ekki og við munum aldrei geta komið í framkvæmd ef við höfum þessa hagsmuni í huga. Það er þess vegna sem við þurfum að fara raunhæft yfir þessi mál.

Það má vel vera að mat mitt sé rangt og hv. þm. haldi því fram að ég sé ekki að vinna rétt þar frekar en í öðrum málum. En sagan mun væntanlega dæma það. Kannski verðum við ekki þeir aðilar sem taka lokaákvarðanir um það en ræður okkar verða lesnar eftir tíu, tuttugu ár og þá mun sá dómur verða felldur en ekki fyrr.