Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:36:17 (327)

2000-10-10 17:36:17# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta hæstv. utanrrh. um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Innan verkalýðshreyfingarinnar eru skiptar skoðanir um afstöðuna til Evrópusambandsins og einnig til EES-samningsins og hins innri markaðar.

Það kom mér hins vegar mjög á óvart að hvaða marki hæstv. utanrrh. leggur alþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök að jöfnu, Sameinuðu þjóðirnar og NATO, Norðurlandaráð og Evrópusambandið. Að mínum dómi byggir þetta ekki aðeins á miklum misskilningi heldur einnig harla íhaldssamri heimssýn.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur beitt sér fyrir og er fylgjandi alþjóðahyggju og fjölþjóðlegu samstarfi, hvort sem litið er til umhverfismála, til friðarmála, til mannréttinda, og í viðskiptum þótt þar sé að því að hyggja að viljum ekki opna allar gáttir fyrir fjölþjóðlegu fjármagni í okkar litla hagkerfi. Við viljum standa þannig að málum að staðinn sé vörður um fullveldi landsins. Við teljum Evrópusambandið vera ávísun á einangrunarhyggju auk þess sem það skerðir fullveldi þjóðarinnar.

Staðreyndin er sú að ásetningurinn innan Evrópusambandsins að keyra Evrópusamrunann markvisst áfram er býsna sterkur, að mynda stórt evrópskt ríki með einum sameiginlegum landamærum, með sameiginlegri efnahags- og peningapólitík, sá ásetningur er býsna sterkur. Menn gera því skóna og velta því fyrir sér hvort Noregur kunni að gerast aðili að Evrópusambandinu innan tíðar því að menn vita sem er að það verður reynt aftur. Norðmenn eru tvívegis búnir að fella það í þjóðaratkvæðagreiðslu að gerast aðilar að Evrópusambandinu en menn vita að það verður reynt aftur og aftur á sama hátt og reynt var aftur í Danmörku með Maastricht-samkomulagið þar til það var samþykkt, að vísu breytt, dönsk stjórnvöld náðu því fram. Og menn gera því skóna að Danir eigi eftir að taka upp evruna. Menn vita sem er að það verður reynt aftur og aftur og aftur. Stjórnmálamenn sem eru fylgjandi Evrópusamrunanum í Evrópu hafa reynt að laga sig að þessu. Þeir vita um andstöðuna, hina sterku andstöðu í þjóðfélögunum gegn þessum samruna og hafa reynt að haga málflutningi sínum í samræmi við þetta. Hann er oft mjög þokukenndur og oft er hann villandi og óheiðarlegur.

Þannig varð ég vitni að viðtali t.d. við danska forsætisráðherrann, Poul Nyrup Rasmussen, þegar hann var spurður um tengslin á milli evrunnar og Evrópusamrunans og hann kvað þessi tengsl afskaplega lítil, þetta væru lítil tengsl. Auðvitað sjá það allir að þetta er mjög óheiðarlegt svar. Þetta er ekki bara þokukenndur málflutningur, þetta er óheiðarlegt svar. Og það er gegn þessu sem danska þjóðin reis, gegn málflutningi af þessu tagi, þessum óheiðarlega málflutningi, þokukennda og óheiðarlega málflutningi. Og enda þótt nær allir stjórnmálaflokkar í Danmörku væru fylgjandi því að Danir segðu já við evrunni, ekki vinstri sinnar og ekki þeir sem standa langt til hægri, þeir voru þessu andvígir, en mikill meiri hluti pólitískra stofnana var þessu fylgjandi. Stofnanir á vinnumarkaði voru þessu eindregið fylgjandi. Nær allir fjölmiðlar voru þessu fylgjandi. En þjóðin sagði nei. Það er sannfæring mín að þjóðin hafi ekki einvörðungu verið að andæfa evrunni. Hún var að andæfa þokukenndum, óheiðarlegum vinnubrögðum og óheiðarlegum málflutningi þeirra sem segja endalaust að það þurfi að skoða málin, það þurfi að setja nefnd í málið. Hún var að andæfa málflutningi þeirra sem ekki þora að koma hreint til dyranna með afstöðu sína.

Skyldi þessi málflutningur eiga sér einhverja samsvörun á Íslandi? Skyldi það vera að þessi málflutningur eigi einhverja samsvörun hér á landi? Já, hann á það hjá tveimur stjórnmálaflokkum og sá málflutningur hefur birst okkur hér í dag, úr munni hæstv. utanrrh. fyrir hönd Framsfl. og af hálfu ýmissa þeirra sem talað hafa fyrir hönd Samfylkingarinnar. Þeir ætla endalaust að vera að skoða málið. Þetta er þokukenndur og óljós málflutningur.

Það væri fróðlegt að vita hvernig eigi að haga þjóðaratkvæðagreiðslunni sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði fyrir vegna þess að það allir eru sammála því að ef til þess kæmi að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu þá færi að sjálfsögðu fram um það þjóðaratkvæðagreiðsla, það greinir engan á um þetta. En á að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort við eigum að ræða hin margrómuðu samningsmarkmið eða hvort það eigi að sækja um aðild? Erum við þá að tala um tvær þjóðaratkvæðagreiðslur? Um hvað erum við að tala?

Á ekki að gera þá kröfu til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka að þeir komi hreint til dyranna og segi hver raunveruleg stefna þeirra er? Ef þeir vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu þá segi þeir það hreint út og bjóði síðan stefnu sína fram í kosningum. Þetta er lágmarkskrafa sem hægt er að gera og á að gera til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka.