Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:57:50 (336)

2000-10-10 17:57:50# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:57]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég er reyndar ekki viss um að það hefði komið mjög að sök þó að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefði í þessu tilviki farið í ræðustólinn í minn stað. Ég geri mér góðar vonir um að við séum býsna sammála í því máli sem nú kemur hér á dagskrá. Til marks um það má nefna að meðal flm. er hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar.

Hér er, herra forseti, mælt fyrir till. til þál. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak. Þar eru flm. ásamt mér hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, eins og áður sagði, og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Það eru sem sagt fulltrúar úr þremur þingflokkum stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi sem sameinast um stuðning við þessa tillögu.

Tillögugreinin er ákaflega einföld og er óbreytt eins og hún hefur verið frá því að tillagan var fyrst flutt á Alþingi og hefur hún þó verið flutt fimm sinnum áður. Hún er endurflutt hér og flutt í sjötta sinn og svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Einnig verði mótuð sú stefna að viðskiptahindrunum verði aldrei beitt við þær aðstæður að almenningur, ekki síst börn, líði beinan skort af þeim sökum.``

Tillagan felur sem sagt ekki í sér, herra forseti, einhliða aðgerðir af Íslands hálfu í þeim skilningi að við höfnum ákvörðunum Sameinuðu þjóðanna eða öðru slíku, heldur stefnumótun um að við beitum okkur fyrir því að þetta ástand verði tafarlaust tekið til endurskoðunar.

Það er eiginlega, herra forseti, dapurlegt að þurfa að segja frá því að þessi tillaga hefur aldrei náð því að verða útrædd hér á þingi og reyndar aldrei verið afgreidd frá nefnd, hv. utanrmn. Það gerðist þvert á móti á 125. löggjafarþingi, þ.e. í fyrra, þegar tillagan var flutt í fimmta sinn eftir ítarlegar umræðu í nefndinni, eftir að umsagnir höfðu legið fyrir, bæði frá þeim vetri og fyrri tíð, að þá hafnaði meiri hluti utanrmn. því að hún kæmi til afgreiðslu á Alþingi. Vilji Alþingis sjálfs, vilji þingmanna hér í þingsalnum hefur því aldrei fengið að koma í ljós í þessu máli. Ég held, herra forseti, að slík vinnubrögð séu nokkurt umhugsunarefni, að það skuli geta gengið þannig til að spurningin um afstöðu í tiltölulega skýru máli, með eða á móti, skuli ekki fá að koma fram á Alþingi Íslendinga árum saman og að menn skuli ekki sýna þingræðinu og lýðræðinu þá virðingu að leyfa slíkum málum að koma til atkvæðagreiðslu.

[18:00]

Herra forseti. Ég sem nokkuð reyndur þingmaður verð sjálfsagt að telja það og hugsa með árunum æ meir um það hvort við verðum ekki að endurskoða vinnubrögð okkar í þessum efnum hér á þingi og tryggja það einhvern veginn að mál sem hafa fengið fullnægjandi umfjöllun og skoðun fái að ganga til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu. Sé ekki meirihlutastuðningur við þau séu þau felld eða þeim vísað frá en fái samþykki ella.

Það er hart við það að búa að þetta ömurlega viðskiptabann á Írak með sínum hörmulegu afleiðingum hefur nú staðið í meira en áratug og þetta er sjötta tilraunin hér á Alþingi Íslendinga til að kalla fram afstöðu til þess með þó þeim vægilega eða mildilega hætti að allt og sumt sem ákveðið sé sé að Íslendingar taki upp þá afstöðu á alþjóðavettvangi að þeir vilji beita sér fyrir endurskoðun á framkvæmd þessa viðskiptabanns.

Herra forseti. Nokkur orð um afleiðingar viðskiptabannsins á Írak sem staðið hefur eins og áður sagði í rúman áratug. Staðan er þannig í dag eftir þessi tíu ár að meira en ein og hálf milljón Íraka hefur nú látið lífið vegna skorts á nauðsynjum sem rekja má til bannsins. Þetta mannfall er orðið með því mesta sem þekkt er meðal nokkurrar þjóðar utan styrjaldartíma og þarf í rauninni að fara aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar til að finna nokkrar hliðstæður við þetta ástand. Margvíslegar skýrslur og úttektir á ástandinu hafa birst á síðustu missirum og stöðugt fleiri mannréttindasamtök hafa hvatt til þess að refsiaðgerðirnar verði teknar til endurskoðunar.

Í skýrslu Kofi Annans, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, til 51. fundar allsherjarþings samtakanna kom m.a. fram að um 4 milljónir Íraka, að stórum hluta börn undir fimm ára aldri, væru hrjáðar af vannæringu. Um fjórði partur þessarar fjölmennu þjóðar er sem sagt hungraður og líður skort af þeim sökum. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í Morgunblaðsgrein eftir framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands 19. mars 1998 var þá áætlað, og varla hefur ástandið skánað, að um 80% þjóðarinnar hefðu litlar sem engar tekjur. Um 60--70% eru með beinum hætti án atvinnu og án tekna. Menn hafa að einhverju leyti dregið fram lífið og komist af undanfarin ár með því að ganga á eignir sínar og nú er svo komið að meðal alls almennings í Írak er allt farið sem hægt er að koma í verð með nokkru móti. Heimili eru tóm og öll afsetjanleg verðmæti eru farin í það eitt að reyna að draga fram lífið ár eftir ár við þessar ömurlegu aðstæður. Við þetta bætist auðvitað að læknisþjónusta og starfsemi sjúkrahúsa er í lágmarki og heilsufari þjóðarinnar hrakar að sama skapi. Þessi þjóð sem einu sinni státaði af mesta langlífi og því að vera hvað þróuðust og búa við einna bestar aðstæður hvað varðaði menntun og heilsugæslu í öllum Miðausturlöndum er nú nánast komin aftur á steinaldarstig.

Hinn 21. júní sl. birtist skýrsla um lögfræðileg álitamál varðandi efnahagslegar refsiaðgerðir. Þar var ekki á ferðinni einhver áróður tillögumanna eða annarra slíkra aðila sem stundum hafa verið sakaðir um að færa ekki rök fyrir alvarlegum ásökunum um ólögmæti eða hæpið réttlæti í lagalegum skilningi þessara aðgerða. Það voru einfaldlega Sameinuðu þjóðirnar sjálfar, mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, United Nations Commission on Human Rights, sem komst að þeirri niðurstöðu í þeirri skýrslu sinni að refsiaðgerðirnar, viðskiptabannið á Írak samræmdust hvorki mannréttindayfirlýsingunni sjálfri, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna né Genfar-sáttmálanum frá 1949 og viðaukum við hann frá 1977. Með öðrum orðum að þessar refsiaðgerðir eins og þær kæmu niður brytu alla helstu mannréttindasáttmála og samþykktir alþjóðasamfélagsins. Það var einfaldlega niðurstaða þessara aðila. Í skýrslunni er rakið hvaða skilyrði stjórnmálalegar aðgerðir af þessu tagi þurfi að uppfylla til að geta samrýmst þessum sáttmálum og það er fyrir það fyrsta að refsingin bitni á réttum aðilum og að refsingin hindri ekki dreifingu lífsnauðsynja og kippi ekki tilverugrundvelli undan fólki, svipti það ekki frummannréttindum og að aðgerðirnar nái eða séu líklegar til að ná yfirlýstum markmiðum sínum.

Refsiaðgerðirnar á Írak uppfylla ekkert af þessum skilyrðum. Það á að heita svo að þeim sé beint gegn einræðisstjórn Saddam Husseins en á þeirri harðstjórn er ekkert fararsnið nú eftir tíu ára aðgerðir.

Viðskiptaþvingununum var einnig ætlað að knýja Íraksstjórn til að gefa upplýsingar um framleiðslu gereyðingarvopna. Ekki hefur það heldur tekist mjög gæfulega. Og á þessu sviði sem og öllum öðrum hafa aðgerðirnar ekki skilað tilætluðum árangri en haft í för með sér skelfilegar hörmungar sem bitna á aðilum sem refsingarnar eiga ekki að beinast gegn.

Það er fyrst og fremst almenningur í Írak sem líður fyrir refsiaðgerðirnar eins og sést á því alvarlega ástandi sem þar ríkir og þær tölur sem ég fór með sýna fram á. Það samkomulag sem í gildi hefur verið um takmarkaða olíusölu til kaupa á matvælum og lyfjum breytir því miður afar litlu um hörmulegar aðstæður alls almennings. Vegna þess að í fyrsta lagi er um takmarkað magn að ræða sem skilar takmörkuðum tekjum, stór hluti þeirra tekna eru eða a.m.k. voru framan af teknar beint í stríðsskaðabætur, þær ganga því ekki til írösku þjóðarinnar og síðast en ekki síst er ástandið í landinu þannig að hluti þeirra verðmæta og þess varnings sem kemur inn í landið undir þessum formerkjum er stolið undan og gengur ekki til þess mannúðarstarfs sem þeim er ætlað að ganga til. Menn geta að öllu þessu samanlögðu auðvitað sagt, já, en þetta er Saddam Hussein að kenna. Gott og vel en það breytir engu um að útkoman er þessi, ástandið er svona og börnin deyja.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að maður spyr, hvernig er ástand mála hjá alþjóðasamfélaginu, ef maður má nota það orð, og Sameinuðu þjóðunum þá auðvitað ekki síst sem og okkur öllum sem berum hina sameiginlegu, kollektífu ábyrgð á því sem þarna gerist, þegar það gerist að allir helstu yfirmenn sem fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna hafa starfað í Írak hafa sagt af sér embætti í mótsmælaskyni við það sem þarna gerist? Það gerði einn reyndasti og virtasti háttsetti embættismaður Sameinuðu þjóðanna, Hans von Sponeck. Fyrst var það reyndar Denis Halliday sem var ábyrgur fyrir hjálparstarfi Sameinuðu þjóðanna í Írak og framkvæmd áætlunarinnar ,,Olíu fyrir mat`` og allt sem því viðkom. Hann sagði af sér embætti eftir nærri 30 ára þjónustu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hefur síðan farið um lönd og álfur í þrotlausri baráttu fyrir því að þessu banni verði aflétt. Í kjölfarið tók þar til starfa Hans nokkur von Sponeck og hann fór sömu leið þegar hann hafði kynnst af eigin raun eftir nokkur missiri ástandi mála í Írak. Yfirmaður matvæladreifingar Sameinuðu þjóðanna í landinu, Jutta Burghart, sagði sömuleiðis af sér embætti og fleiri háttsettir embættismenn hafa séð sig knúna til að segja af sér í mótmælaskyni við það ástand sem þarna er eða hafa neitað að bera ábyrgð á framkvæmd viðskiptabannsins lengur.

Það þarf að sjálfsögðu ekki, herra forseti, að deila hér um það að harðstjórinn Saddam Hussein og einræðisstjórn hans ber sína ábyrgð á þeim hörmungum, þeim skelfilegu hörmungum sem dunið hafa yfir írösku þjóðina á undanförnum árum og ekki bara á þessu ástandi meðan viðskiptabannið varir heldur þeim styrjöldum sem hann kallaði yfir land sitt árin þar á undan. Það er hins vegar þrátt fyrir það nákvæmlega jafnóverjandi að dæma 22 milljón manna þjóð til hungursneyðar, örbirgðar svo árum ef ekki áratugum skiptir. Við getum ekki sætt okkur við slíkt ástand til frambúðar. Við verðum að hafa manndóm til þess að endurskoða afstöðu okkar, hver sem hún hefur verið, til þessa ástands og þessa viðskiptabanns og ná þar fram einhverjum breytingum. Það er engu að tapa í þeim efnum vegna þess að ástandið getur ekki orðið verra, eða hvað? Er hægt að hugsa sér það ömurlegra en það sem þarna hefur verið að gerast á undanförnum árum?

Með þessari tillögu, að lokum, herra forseti, er að sjálfsögðu ekki verið að taka almenna afstöðu gegn viðskiptalegum aðgerðum eða stjórnmálalegum aðgerðum, enda hafa slíkar aðgerðir við tilteknar aðstæður og framkvæmdar með tilteknum hætti skilað árangri og oftast er þar vitnað til fordæmisins um þann árangur sem án efa viðskiptalegar þvingunaraðgerðir og stjórnmálaleg einangrun áttu í því að kollvarpa aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. Sömuleiðis segi ég það hiklaust að oft eru uppi þær aðstæður að það er að sjálfsögðu rétt að alþjóðasamfélagið grípi til takmarkandi aðgerða eins og vopnasölubanns eða stjórnmálalegrar einangrunar eða þess að frysta innstæður ráðamanna í erlendum bönkum og annað slíkt. En algjör einangrun sem dæmir heila þjóð til hungursneyðar er allt annar hlutur og ekki sambærilegur við það þó að stjórnmálalegar aðgerðir af einhverju tagi séu í gangi.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn. Og nú vil ég fá að trúa því þangað til annað kemur í ljós að Alþingi fái að taka afstöðu til þessa máls og greiða um það atkvæði áður en það lýkur störfum á þessu þingi.