Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:46:21 (345)

2000-10-10 18:46:21# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér finnst miður ef utanrrh. er að hverfa úr salnum vegna þess að ég ætla að leggja fyrir hann örstutta spurningu. Mér þætti vænt um ef hann á möguleika á því að staldra við, ræða mín verður ekki löng.

Ég tek undir þau orð utanrrh. að aðalmálið sé ógnarstjórn þar sem einræðisherrar stjórna ferðinni. En umræðan, hvorki um þetta mál né aðrar ógnarstjórnir, er alls ekki svart-hvít og mér finnst við detta örlítið niður í það að reyna að snúa slíkri umræðu í svart-hvíta umræðu. Ég vil taka sérstaklega fram að Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem var talsmaður Samfylkingarinnar í umræðunni, gerði það afskaplega vel og dró fram aðalatriði sem snúa að afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli.

Hún benti líka á að Saddam Hussein var vinur vesturveldanna alveg þar til kom að innrásinni í Kúveit. Það er kannski kjarni máls sem við ættum að ræða hér og það er þessi vinátta eða stuðningur vesturveldanna við einræðisríki. Ég get minnt á Íran og ég get minnt á Víetnam þar sem stuðningur að vestan við gjörspillta stjórnendur var upphafið að ógnaröld annars vegar hörmulegra stríðsátaka í Víetnam og hins vegar einræði og kúgun í Íran og að milljónir, þúsundir og milljónir dollara runnu inn í þessi ríki sem stuðningur við gjörspillta einræðisherra og varð til þess að þegar upp var risið þá náðu þeir aðilar undirtökum sem orsökuðu gífurlega erfiðleika í þessum þjóðfélögum.

Þess vegna stöndum við frammi fyrir því að þó að öryggisráðið hafi heimildir til að grípa til aðgerða og að réttur þeirra sé ótvíræður eins og kom fram í máli utanrrh. til að setja á eða taka þátt í viðskiptabanni stöndum við frammi fyrir því að tíu ára ferli hefur ekki skilað okkur þangað sem því var ætlað. Erfitt er að standa frammi fyrir því hve þjóðir heims eru fullkomlega ráðþrota gagnvart einræðisherrum. Við hljótum að spyrja okkur að því hvort við höfum lært eitthvað af Júgóslavíu.

Einræðisherrum tekst nefnilega að beina óvildinni heima fyrir að þeim sem virðast orsakavaldar að erfiðleikunum sem blasa við fólkinu. Nú í síðustu viku þegar breytingarnar verða í Júgóslavíu og rætt er við fólkið í landinu þá segir fólkið: Við verðum núna að vinna úr því sem okkur fannst erfiðast af því að óvild fólks í Júgóslavíu beindist m.a. að NATO --- við verðum að vinna úr þessari óvild sem við sitjum uppi með og reyna að snúa henni upp í að við núna vinnum með þessu fólki fyrir vestan og gerum okkur grein fyrir því að það var Milosevic sem var aðalorsakavaldurinn.

Þannig er það líka í öðrum ríkjum að fólkið sem býr við hrömungar heima fyrir í Írak horfir ekki á Saddam Hussein og segir: Hann er orsakavaldurinn. Nei, óvildin beinist að vesturveldunum sem búa til þessa erfiðu stöðu heima fyrir. Þetta finnst mér vera kjarninn í umræðunni. Þetta finnst mér vera það sem við þurfum að horfa á og við blasir.

Í þessari greinargerð og sem hefur verið gert að aðalmálinu er vísað í skýrslu Kofi Annans annars vegar og um skýrslu um lögfræðileg álitamál varðandi efnhagslegar refsiaðgerðir sem unnin var á vegum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það finnst mér vera þungamálið, herra utanrrh., og snýr að þeirri spurningu sem ég ætla að bera fram.

(Forseti (ÍGP): Má ég minna hv. þm. á að ávarpa forseta en ekki hæstv. ráðherra.)

Herra forseti, það er hárrétt, herra forseti, að ég mun beina því til forseta að fá að bera fram spurningu til utanrrh. vegna skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum. Við í þessum sal höfum innleitt varnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við erum aðilar að Genfarsáttmálanum og við virðum mannréttindayfirlýsinguna. Þá hljótum við að spyrja okkur hvernig við eigum að bregðast við þegar mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kveður upp úr um að refsiaðgerðirnar samræmist ekki þeim yfirlýsingum sem við höfum í raun og veru gert að okkar. Mér finnst þetta segja allt sem þarf og ég spyr þess vegna:

Er engin umræða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland getur komið inn í umræðuna? Ef meiri hlutinn á Alþingi Íslendinga fellst á að þessi tillaga komi til atkvæða og það reynist vera meirihlutaniðurstaða á hv. Alþingi að við viljum að ríkisstjórn okkar beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabannið verði tekið til endurskoðunar, er einhver vettvangur hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem Ísland getur beitt sér þannig að það sé hægt að finna aðrar leiðir? Eða er það bara þannig að annaðhvort fljótum við með eða ekki?

Þetta er spurning mín, herra forseti: Finnst einhver vettvangur innan samstarfs okkar við Sameinuðu þjóðirnar sem við getum tekið þetta mál upp á? Það er fullkomlega óviðunandi að við stöndum að þessu máli eins og það hefur þróast.