Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:55:54 (347)

2000-10-10 18:55:54# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að enginn ágreiningur er um hvers konar ógnarstjórn Saddam Hussein stendur fyrir. Umræðan snýst um það hvernig vesturveldin hafa brugðist við eftir tíu ára reynslu af viðskiptabanninu. Það er fullkomlega fáránlegt að skýrsla sé lögð fram á vegum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að viðskiptabannið samrýmist ekki þeim sáttmálum sem þessar sömu Sameinuðu þjóðir hafa kveðið upp úr með og samið og skapað. Við verðum að komast einhvern veginn út úr því að vera bara aðilar að viðskiptabanni. Það líða tíu ár og það koma skýrslur sem í raun og veru kveða upp úr með að þetta viðskiptabann er meira eða minna gagnslaust. Þá hljótum við að reyna með þeim sem við störfum með að finna aðrar leiðir.

Ég veit að við erum ekki aðilar að öryggisráðinu en ég hlýt að spyrja utanrrh.: Hvernig er umræða utanrrh. Norðurlandanna og utanrrh. Evrópu? Er fullkomin eining í þessum tveimur hópum um að standa að viðskiptabanninu og reyna ekki að hafa einhver áhrif á að grípa til annarra úrræða?