Sameining Búnaðarbanka og Landsbanka

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:31:17 (352)

2000-10-11 13:31:17# 126. lþ. 7.91 fundur 41#B sameining Búnaðarbanka og Landsbanka# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Stjórnvöld hafa staðfest að um þessar mundir eiga sér stað viðræður um sameiningu Búnaðarbankans og Landsbankans. Ástæðan er sögð sú að í sameiningunni sé fólgið nokkurt hagræði vegna þess að nokkur hundruð manna kunni að tapa störfum sínum við sameiningu bankanna.

Það liggur hins vegar ljóst fyrir, herra forseti, að samruni bankanna mundi leiða til þess að það yrði til ofurbanki sem hefði sennilega næstum því 60% hlutdeild á viðskiptabankamarkaði og hefði því óneitanlega yfirburðastöðu á markaðnum. Ég tel því ljóst, herra forseti, að slíkur banki mundi klárlega teljast markaðsráðandi samkvæmt gildandi samkeppnislögum. Það er því hóflega orðað, herra forseti, þegar ég staðhæfi að það eru a.m.k. áhöld um það hvort þessi samruni sé í samræmi við gildandi lög. Reyndar liggur fyrir það álit sérfræðings við hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands að svo sé ekki.

Nú er það svo að samkvæmt gildandi samkeppnislögum er það hlutverk samkeppnisráðs að hafa afskipti af samruna fyrirtækja ef það lítur svo á að hann sé í andstöðu við hagsmuni neytenda. Ef samkeppnisráð telur að slíkur samruni kunni að leiða til markaðsyfirráða eða að verulega dragi úr samkeppni eða geti með öðru móti haft óheillavænleg áhrif á hagsmuni neytenda, þá ber ráðinu að ógilda samrunann. Mér finnst því að það virki ákaflega skrýtið ef stjórnvöld eru um þessar mundir að bræða með sér samruna ef sterkar líkur eru á að samkeppnisráð leggist gegn og kunni jafnvel að ónýta fyrir ríkisstjórninni.

Það er alveg ljóst að ef af þessari ákvörðun verður mun málið koma til kasta hins háa Alþingis. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hún telji ekki ráðlegt að notfæra sér þá heimild sem er að finna í 18. gr. samkeppnislaganna og óska eftir því að samkeppnisráð gefi fyrir fram álit á því hvort það telji samruna bankanna stríða gegn gildandi lögum í þeim mæli að ráðið muni ógilda samrunann ef af honum verður.