Sameining Búnaðarbanka og Landsbanka

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:33:25 (353)

2000-10-11 13:33:25# 126. lþ. 7.91 fundur 41#B sameining Búnaðarbanka og Landsbanka# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að bera það til baka sem kom fram hjá hv. þm. um að það hafi verið staðfest af hálfu stjórnvalda að fram færu viðræður um sameiningu bankanna. Þetta er ekki rétt. Það fara hins vegar fram viðræður um hvernig farið skuli í frekari sölu á hlut ríkisins í bönkunum. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að sameina bankana. Á meðan svo er er sú spurning sem hv. þm. ber upp í rauninni ótímabær.

Auk þess vil ég geta þess að þessi fyrirtæki eru skráð á Verðbréfaþingi þannig að allar ákvarðanir sem teknar eru um framtíð þeirra þarf að sjálfsögðu að tilkynna Verðbréfaþinginu. Þar af leiðandi er ótímabært að ræða þetta mál á hv. Alþingi á þessum degi.

Um það hvenær tíðinda sé að vænta, þá get ég heldur ekki svarað því. Það fara fram viðræður og ég lít svo á að það líði ekkert ákaflega langur tími þangað til fyrir liggur hvernig ríkisstjórnin hyggst leysa þessi mál og á hvern hátt hún telur réttast að fara í frekari sölu. En svör geta því miður ekki orðið nákvæmari í dag.